Sögulegt HM fyrir Norðurlandaþjóðir

Aron Einar Gunnarsson og samherjar hans fagna á Laugardalsvelli.
Aron Einar Gunnarsson og samherjar hans fagna á Laugardalsvelli. mbl.is/Golli

Þrjár Norðurlandaþjóðir unnu sér inn keppnisrétt í lokakeppni HM karla í knattspyrnu í Rússlandi næsta sumar en slíkt hefur aldrei gerst fyrr hjá körlunum. 

Ísland varð fyrst til þess í þetta skiptið eins og alkunna er með því að vinna sinn riðil. Síðustu tvö kvöld hafa Svíþjóð og Danmörk bæst í hópinn með góðum úrslitum í umspili gegn Ítölum og Írum.

Svíar eiga sér flotta sögu á HM og hafa býsna oft verið með í lokakeppnunum eða tólf sinnum ef HM í Rússlandi er talið með. Hafa Svíar reyndar þurft að bíða síðan 2006 eða frá því Lars okkar Lagerbäck stýrði liðinu og misstu því af keppninni 2010 og 2014. Svíþjóð komst á HM: 1934, 1938, 1950, 1958, 1970, 1974, 1978, 1990, 1994, 2002, 2006 og nú 2018.  Besti árangur Svía er silfurverðlaun á heimavelli 1958 með þá Gunnar Gren og Niels Liedholm innanborðs en hinn 17 ára gamli Pele reyndist þeim erfiður í úrslitaleiknum. Svíar hafa þrívegis unnið til verðlauna en þeir fengu brons 1950 og 1994. 

Danir biðu þar til 1986 eftir því að komast á HM og mættu þá til leiks með stæl. Höfðu komist í undanúrslit á EM 1984 með tilheyrandi sjálfstrausti og brugðu sér í stúdíó þar sem leikmaðurinn Frank Arnesen söng lagið Re-Sepp-ten sem náði miklum vinsældum á Íslandi. Danir hafa fimm sinnum komist á HM: 1986, 1998, 2002, 2010 og nú 2018. Besti árangur Dana er 8. sæti á HM í Frakklandi árið 1998. Liðið burstaði þá öflugt lið Nígeríu 4:1 í eftirminnilegum leik í 16-liða úrslitum en tapaði naumlega fyrir Brasilíu 3:2 í 8-liða úrslitum. 

Norðmenn hafa þrívegis komist í lokakeppni HM en langur tími leið á milli fyrstu tveggja keppnanna hjá þeim. Noregur var með í lokakeppninni: 1938, 1994 og 1998. Besti árangur Norðmanna á HM er 15. sæti á HM í Frakklandi 1998 en þá voru í liðinu margir leikmenn sem léku í ensku úrvalsdeildinni og má þar nefna Ronny Johnsen, Tore Andre Flo og Ole Gunnar Solskjær. Norðmenn unnu þá líklega sinn stærsta sigur þegar þeir skelltu Brasilíumönnum 2:1 í riðlinum en féllu úr keppni eftir að hafa tapað 1:0 fyrir Ítalíu í 16-liða úrslitum. 

Íslendingar verða með í lokakeppni HM í fyrsta skipti eins og alkunna er en hvorki Finnar né Færeyingar hafa komist í lokakeppni HM. Eins og sjá má á ártölunum hér að framan hefur það gerst að tvær Norðurlandaþjóðir hafi verið á HM en aldrei þrjár. Danir komust ekki á HM 1994 og Svíar ekki á HM 1998. 

Svíar fagna árangri sínum á San Siro í Mílanó.
Svíar fagna árangri sínum á San Siro í Mílanó. AFP
Danir fagna í Dublin í gærkvöld.
Danir fagna í Dublin í gærkvöld. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert