„Þarf að finna mér nýtt lið“

Arnór Ingvi í leiknum gegn Katar í síðustu viku.
Arnór Ingvi í leiknum gegn Katar í síðustu viku. AFP

Landsliðsmaðurinn Arnór Ingvi Traustason er staðráðinn í að komast í burtu frá gríska liðinu AEK en hann hefur lítið sem ekkert fengið að spila með liðinu.

Arnór Ingvi var lánaður til gríska liðsins í sumar frá austurríska liðinu Rapid Vín en um eins árs lánssamning var að ræða. Hann hefur aðeins komið við sögu í þremur leikjum AEK af 11 í deildinni og í tveimur þeirra kom hann inn á sem varamaður. Arnór gerði fjögurra ára samning við Rapid Vín í maí á síðasta ári en liðið keypti hann frá sænska liðinu Norrköping og hann var þar með dýrasti leikmaðurinn í sögu austurríska liðsins sem greiddi fyrir hann 2 milljónir evra sem jafngildir um 245 milljónum króna.

Sænskir fjölmiðlar greindu frá því í síðustu viku að sænsku meistararnir í Malmö væru áhugasamir um að fá Arnór til liðs við sig og fram kom í frétt í Expressen að umboðsmaður Arnórs hafi rætt við forráðamenn Malmö.

„Ég hef sjálfur ekkert heyrt frá Malmö,“ sagði Arnór í samtali við mbl.is. „Staðan hjá mér er þannig að ég er ekkert að spila. Það er HM á næsta ári svo það er klárt mál að ég þarf að finna mér nýtt lið og fara að spila fótbolta. Þetta er allt í ferli,“ sagði Arnór Ingvi, sem sló í gegn með íslenska landsliðinu á EM á síðasta ári.

Arnór, sem er 24 ára gamall, hefur spilað 15 leiki með íslenska A-landsliðinu og hefur í þeim skorað 5 mörk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert