Víkingshjartað gerði útslagið hjá Sölva

Sölvi Geir Ottesen með treyju Víkings í dag.
Sölvi Geir Ottesen með treyju Víkings í dag. mbl.is/Andri Yrkill

„Hjartað slær Víkingshjartanu. Ég er kominn heim,“ sagði knattspyrnumaðurinn Sölvi Geir Ottesen við mbl.is eftir að hafa skrifað undir þriggja ára samning við Víking R. og snýr því aftur úr atvinnumennsku eftir að hafa spilað erlendis frá árinu 2004.

„Mér líst mjög vel á þetta og ég get varla beðið eftir að fara að spila með Víkingum aftur. Þetta var ekki erfitt val, hugurinn leitaði alltaf hingað. Það voru engin önnur lið sem komu til greina,“ sagði Sölvi. Víkingar höfnuðu í 8. sæti Pepsi-deildarinnar í fyrra og stefnan er sett hærra.

„Að sjálfsögðu, við sættum okkur ekki við 8. sætið. Það er nokkuð ljóst að við þurfum að stefna hærra og það væri rosalega gott að komast í Evrópusæti,“ sagði Sölvi.

Hann er 33 ára gamall og var síðast á mála hjá Guangzhou R&F í Kína, en hvernig er standið á honum? „Það er bara mjög gott. Ég er nýbúinn með tímabilið í Kína, er í góðu standi og mun halda áfram að byggja ofan á það,“ sagði Sölvi.

Hann spilaði síðast hér á landi árið 2004, en hefur hann fylgst mikið með boltanum hér heima?

„Nei, ég hef rosalega lítið fylgst með íslenskum fótbolta og það er bara eitthvað sem ég mun koma mér betur inn í núna þegar ég er kominn til Íslands,“ sagði Sölvi, en hann hefur farið víða sem atvinnumaður og spilað í Svíþjóð, Danmörku, Rússlandi, Kína og Tælandi. Hvað stendur upp úr á ferlinum?

„Það er í raun og veru ekkert eitt sem ég get tekið út. Þetta voru margir staðir, margar deildir og mismunandi upplifanir á hverjum stað. Ferillinn allur má segja að hafi staðið upp úr,“ sagði Sölvi Geir Ottesen.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert