Fjolla snýr aftur í fyrsta landsleiknum – „Smá stress“

Fjolla Shala lætur finna fyrir sér með Blikum.
Fjolla Shala lætur finna fyrir sér með Blikum. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég er ekki búin að spila í 14 mánuði, svo þetta verður fyrsti leikurinn,“ segir Fjolla Shala, leikmaður Breiðabliks í knattspyrnu, en eins og mbl.is greindi frá í morgun þá var hún valin í landslið Kósóvó í fyrsta sinn.

Fjolla missti af öllu tímabilinu með Breiðabliki í sumar eftir að hafa slitið krossband í hné, en hún hefur ekki spilað fótbolta í 14 mánuði eins og hún segir. Þegar mbl.is náði af henni tali var hún á leiðinni til móts við liðið, en leikið er gegn Svartfjallalandi á sunnudag.

„Ég var búin að fá símtal hvort ég vildi mæta á æfingar áður en ég sleit krossbandið svo ég vissi af þessu. Það var einmitt á svipuðum tíma í fyrra fyrir leiki í nóvember, en þá sleit ég krossbandið í næstsíðasta leiknum um sumarið og fór ekkert út,“ segir Fjolla, sem ætlaði raunar ekki að fara út núna heldur.

„Nei, ég er ekkert búin að spila svo það er smá stress. En Steini þjálfari [Þorsteinn Halldórsson] er búinn að berja í mig smá vit og segja að þetta verði ekkert mál,“ segir Fjolla, en hvernig hefur endurhæfingin gengið?

„Endurhæfingin gekk brösuglega í byrjun, en það var kannski aðallega því maður var bara að væla og vorkenna sjálfri sér. Svo gekk þetta mjög vel eftir að ég fór til Rúnars [Pálmarssonar], hann er geggjaður sjúkraþjálfari og hjálpaði mér mjög mikið.“

Vita hvernig leikmaður ég er 

Hún segir að forráðamenn Kósóvó hafi ekki veigrað sér við því að bjóða henni út þrátt fyrir löng og erfið meiðsli.

„Þeir eru búnir að spyrja mikið um mig og vita hvernig leikmaður ég er. Ég fæ að ráða hvað ég treysti mér til þess að spila mikið, þetta er aðallega að fá mig út til að ég kynnist öllu og sjái hvernig þetta virkar allt hjá þeim,“ segir Fjolla.

UEFA samþykkti landslið Kósóvó árið 2016 og Fjolla segir að hægt og rólega sé verið að byggja upp landsliðið þar sem reynt sé að fá leikmenn erlendis sem hafa rætur sínar að rekja til ríkisins. Fjolla flutti hingað til lands fimm ára göm­ul, en for­eldr­ar henn­ar eru frá Kósóvó.

„Þetta er bara vináttuleikur og ég get skoðað þetta og ákveðið mig betur eftir hann hvað ég vil gera, hvort ég vilji spila fyrir þjóð mína eða reyna að komast í íslenska landsliðshópinn,“ segir Fjolla, en hún segir að þar sem þetta sé ekki opinber leikur sé hún ekki bundin af því að spila fyrir Kósóvó eftir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert