„Tilfinningin er frábær“

Fyrir tveimur árum urðu þau tímamót að fjórar konur sáu …
Fyrir tveimur árum urðu þau tímamót að fjórar konur sáu um dómgæslu í vináttuleik Íslands og Póllands í U23 ára liðum kvenna. Það voru Rúna Kristín Stefánsdóttir, Birna H. Bergstað, Bríet Bragadóttir og Jovana Cosic. Ljósmynd/KSÍ

Tilkynnt var á dögunum að knattspyrnudómarinn Bríet Bragadóttir hefði verið tekin inn á lista yfir alþjóðlega dómara á vegum FIFA, Alþjóðaknattspyrnusambandsins. Hún er fyrsta íslenska konan sem kemst á listann sem dómari.

„Tilfinningin er frábær. Að verða FIFA-dómari hefur verið markmið hjá mér síðustu fjögur árin og það er frábært að það sé að rætast núna,“ er haft eftir henni á heimasíðu KSÍ í gær og er þar spurð út í bakgrunn í boltanum.

„Ég æfði fótbolta allt frá því að ég var lítil og þangað til ég var 18 ára. Fyrst var ég hjá Sindra á Hornafirði meðan ég bjó þar. Ég flutti síðan í bæinn til að fara í framhaldsskóla og æfði ég þá með KR og Þrótti Reykjavík. Þegar ég var í KR tók ég unglingadómarapróf því allir áttu að taka það á þeim tíma. Fljótlega eftir það meiddist ég það illa að ég gat ekki æft, en á sama tíma var KSÍ einmitt að auglýsa héraðsdómaranámskeið fyrir konur svo ég skellti mér á það,“ segir Bríet.

Hún varð í sumar fyrsta konan til að dæma bikarúrslitaleik á Íslandi þegar hún dæmdi leik ÍBV og Stjörnunnar í kvennaflokki í sumar, en hvað er næsta markmið?

„Það er að fá A-landsleik. Draumurinn væri að þá verði nægilega margar konur á Íslandi að dæma svo hægt verði að senda tríó frá okkur,“ segir Bríet, en Rúna Kristín Stefánsdóttir er á lista FIFA yfir aðstoðardómara.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert