Ef fólk er pirrað þá verður svo að vera

Kristinn Steindórsson kominn í FH-búninginn í dag.
Kristinn Steindórsson kominn í FH-búninginn í dag. mbl.is/Kristinn

„Þegar FH hafði samband þá kviknaði strax áhugi hjá mér og þá var þetta nokkuð fljótt að gerast,“ segir knattspyrnumaðurinn Kristinn Steindórsson sem í dag skrifaði formlega undir samning til tveggja ára við FH.

Kristinn lék allan sinn feril með Breiðabliki, undir stjórn Ólafs Kristjánssonar sem nú stýrir FH, en hefur verið í atvinnumennsku síðustu sex ár. Hann er aðeins 27 ára og því á besta aldri sem fótboltamaður, en var kominn með nóg af því að standa í fallbaráttu. Síðast var Kristinn leikmaður Sundsvall í sænsku úrvalsdeildinni.

Gott að koma í FH eftir botnbaráttu síðustu ár

„Ég er búinn að vera síðastliðin ár með liðum í botnbaráttu, liðum sem hefur ekki vegna mjög vel, og maður var kannski kominn með smá leiða á því. Þá er gott að koma hingað í félag sem að sýnir mikinn metnað og vill vinna. Það er rauði þráðurinn í öllu hjá FH, að koma sér aftur á toppinn, og mér finnst það mjög spennandi,“ segir Kristinn, ánægður með sitt val:

„Ég þekki Óla mjög vel og það er spennandi að vinna með honum aftur. Það spila fleiri þættir inn í. Hér er frábær umgjörð og aðstaða, svo þetta var auðveld ákvörðun.“

Stuðningsmenn Breiðabliks eru þó eflaust margir hverjir svekktir yfir því að Kristinn skyldi ekki snúa aftur í Kópavoginn, fyrst hann á annað borð ákvað að koma aftur til Íslands:

„Ef ég á að segja alveg eins og er þá pæli ég voðalega lítið í því. Ég er í þessu til að taka ákvarðanir fyrir sjálfan mig, ekki einhverja aðra, og ef að fólk er pirrað yfir þeim þá verður það bara að vera þannig. Það er ekki eitthvað sem ég ætla að leggja einhverja orku í að hugsa um,“ segir Kristinn. En er hann alkominn heim úr atvinnumennsku?

„Nei, ég myndi nú ekki segja það. Akkúrat núna er ég þó kominn hingað og hlakka til að byrja hérna, en í boltanum veit maður aldrei. Núna er ég bara að hugsa um næsta tímabil og að koma mér af stað hjá FH,“ segir Kristinn, og honum líst vel á leikmannahópinn sem FH er með í dag eftir að hafa fengið til sín Kristin, Geoffrey Castillion, Hjört Loga Valgarðsson og Guðmund Kristjánsson:

„Mjög vel. Þeir leikmenn sem hafa komið, og þeir sem eru fyrir, gera þetta að mjög öflugum hópi. Það verður gaman að byrja að æfa og vinna að okkar markmiðum saman.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert