Kristinn og Castillion orðnir leikmenn FH

Jón Rúnar Halldórsson formaður knattspyrnudeildar FH býður Kristin Steindórsson velkominn …
Jón Rúnar Halldórsson formaður knattspyrnudeildar FH býður Kristin Steindórsson velkominn í Kaplakrika. mbl.is/Kristinn Magnússon

FH kynnti í dag tvo nýja leikmenn sem koma til með að styrkja liðið verulega í baráttunni um að endurheimta Íslandsmeistaratitilinn í knattspyrnu karla næsta sumar.

Kantmaðurinn Kristinn Steindórsson og framherjinn Geoffrey Castillion hafa samið við FH til næstu tveggja ára. Þetta var tilkynnt á fréttamannafundi í dag.

Kristinn, sem er 27 ára, snýr því heim til Íslands eftir sex ára dvöl í atvinnumennsku, í Svíþjóð og Bandaríkjunum, en hann lék síðast með Sundsvall í sænsku úrvalsdeildinni þar sem hann var fastamaður í byrjunarliðinu. 

Kristinn er uppalinn hjá Breiðabliki og lék allan sinn feril hér á landi undir stjórn Ólafs Kristjánssonar, sem nú er orðinn þjálfari FH. Saman urðu þeir bikarmeistarar árið 2009 og Íslandsmeistarar árið 2010.

Jón Rúnar Halldórsson og Kristinn Steindórsson undirrita pappírana og Ólafur …
Jón Rúnar Halldórsson og Kristinn Steindórsson undirrita pappírana og Ólafur H. Kristjánsson þjálfari FH fylgist með. mbl.is/Kristinn Magnússon

Castillion er 26 ára gamall Hollendingur sem skoraði 11 mörk í 16 deildarleikjum fyrir Víking R. á síðustu leiktíð, þrátt fyrir að hafa meiðst í upphafi tímabilsins. Hann er uppalinn hjá stórliði Ajax í Hollandi en auk þess að hafa spilað í Hollandi hefur hann leikið í Bandaríkjunum, Rúmeníu og Ungverjalandi.

FH hafði áður fengið til sín þá Hjört Loga Valgarðsson og Guðmund Kristjánsson úr atvinnumennsku í Svíþjóð og Noregi í vetur.

Á fréttamannafundi FH í dag var jafnframt tilkynnt um áframhaldandi samstarf félagsins við fyrirtækið Actavis til næstu tveggja ára, en samstarf þessara aðila nær samfleytt aftur til ársins 2001.

Geoffrey Castillion raðaði inn mörkum fyrir Víkinga síðasta sumar.
Geoffrey Castillion raðaði inn mörkum fyrir Víkinga síðasta sumar. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert