Þrír öflugir til Magna – myndskeið

Davíð Rúnar Bjarnason í leik með KA.
Davíð Rúnar Bjarnason í leik með KA. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Magni á Grenivík, sem leikur í 1. deild karla í knattspyrnu á komandi keppnistímabili, hefur fengið góðan liðsauka fyrir baráttuna en þrír reyndir leikmenn úr Þór og KA eru komnir til liðs við nýliðana.

Þetta eru þeir Sigurður Marinó Kristjánsson og Gunnar Örvar Stefánsson sem koma frá Þór og Davíð Rúnar Bjarnason sem kemur frá KA.

Sigurður Marinó er 26 ára miðjumaður sem hefur leikið með meistaraflokki Þórs í ellefu ár og spilað 56 leiki fyrir liðið í efstu deild. Þá gerði hann þrennu í Evrópuleik með Þórsurum gegn Bohemians frá Írlandi árið 2012.

Gunnar Örvar er 23 ára framherji sem lék fyrst með KA en síðan með Þór undanfarin þrjú ár þar sem hann hefur skorað 25 mörk fyrir liðið í 1. deildinni.

Davíð Rúnar er 26 ára varnarmaður sem hefur leikið með meistaraflokki KA frá 2008 og var fyrirliði liðsins þegar það vann 1. deildina 2016. Hann missti af fyrri hluta tímabilsins í úrvalsdeildinni í fyrra en lék þar 9 leiki og skoraði eitt mark.

Magni hafnaði í 2. sæti 2. deildar í fyrra og leikur í fyrsta skipti í næstefstu deild frá árinu 1979 en þá hafði félagið eins árs viðdvöl í deildinni.

Magnamenn kynntu þremenningana til leiks í dag með athyglisverðu myndbandi á vef sínum:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert