Fylkir stefnir á gervigrasið fyrir fyrsta leik

Ný áhorfendastúka stendur við völlinn þar sem gervigras verður lagt.
Ný áhorfendastúka stendur við völlinn þar sem gervigras verður lagt. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Eins og fram kom á mbl.is í dag þá hefur verið gengið frá samkomulagi um uppbyggingu á aðalvelli Fylkis í Árbæ og munu knattspyrnulið félagsins spila á nýjum gervigrasvelli.

Í tilkynningu frá Fylki í dag kom fram að gert sé ráð fyrir að framkvæmdum ljúki seinni hluta næsta árs. Hins vegar er þá talað um verkefnið í heild, en stefnt er að því að Fylkir geti spilað alla leiki sína á Íslandsmótinu næsta sumar á nýja gervigrasinu.

„Það er ekki mikil grunnvinna sem þarf að gera, það er að segja rífa upp gamla grasið og annað slíkt. En gervigras er aldrei lagt nema við ákveðin hitaskilyrði og í þurrki. Ef það verður í apríl þá gætum við náð að spila fyrsta leik á vellinum og það er markmiðið, en við erum á Íslandi svo það gæti alltaf dregist eitthvað,“ sagði Hafsteinn Steinsson hjá knattspyrnudeild Fylkis við mbl.is í dag.

Raskið af framkvæmdunum verður þar af leiðandi ekki það mikið að Fylkir þurfi að leika heimaleiki sína annars staðar til lengri tíma litið næsta sumar. Næstu skref eru þau að verkefnið fari í útboð og vonir standa til að það gangi fljótt og örugglega fyrir sig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert