Staðfesti leik við Íslendinga

Raúl Ruidiaz, Jefferson Farfan og Christian Cueva fagna sigri Perú …
Raúl Ruidiaz, Jefferson Farfan og Christian Cueva fagna sigri Perú á Nýja-Sjálandi í umspili en þar tryggðu Perúbúar sér sæti á HM. AFP

Edwin Oviedo, forseti knattspyrnusambands Perú, staðfesti í dag að Perúbúar myndu mæta Íslendingum í vináttulandsleik í lok mars en báðar þjóðir búa sig undir þátttöku í lokakeppni HM í Rússlandi næsta sumar.

Áður höfðu fjölmiðlar í Perú sagt frá væntanlegum leik þjóðanna á milli en knattspyrnusambandi þar í landi hefur ekki greint opinberlega frá honum, frekar en Knattspyrnusamband Íslands.

Oviedo sagði hinsvegar í viðtali við PPP, útvarpsstöð í Perú, í dag að ákveðið væri að þjóðirnar myndu eigast við. Ennfremur kom fram að samkvæmt heimildum PPP yrði spilað í New York 27 mars.

Þetta verður fyrsti landsleikur milli Íslands og Perú í knattspyrnu en þjóðirnar hafa ekki mæst í neinum aldursflokki. 

Perú er í 11. sæti á heimslista FIFA, fjórða í röð Suður-Ameríkuþjóða, og verður með í lokakeppni HM í fyrsta skipti síðan 1982.

Perú er í C-riðlinum á HM og mætir þar Frakklandi, Ástralíu og Danmörku. Ef Íslandi tekst að komast áfram úr D-riðli keppninnar er mögulegt að liðin myndu mætast í 16-liða úrslitunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert