Draumurinn um HM lifir góðu lífi

Íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu tók á móti Slóveníu í undankeppni HM á Laugardalsvelli í dag en leiknum lauk með 2:0 sigri íslenska liðsins.

Íslenska liðið var sterkari aðilinn í fyrri hálfleik en tókst ekki að skapa sér afgerandi marktækifæri. Harpa Þorsteinsdóttir fékk besta færi leiksins á 36. mínútu þegar boltinn hrökk til hennar í teignum en skotið var lélegt og markmaður gestanna varði nokkuð auðveldlega.

Það var svo Glódís Perla Viggósdóttir sem kom íslenska liðinu yfir á 54. mínútu eftir frábæra fyrirgjöf Hallberu Guðný Gísladóttir. Glódís hirti eigið frákast og setti boltann í markið og hún var svo aftur á ferðinni, þrettán mínútum síðar. Selma Sól Magnúsdóttir tók hornspyrnu frá vinstri sem fór beint á kollinn á Glódísi sem skallaði boltann í netið og staðan orðin 2:0 fyrir íslenska liðið.

Draumurinn um HM 2019 í Frakklandi lifir því góðu lífi hjá íslenska liðinu en liðið er nú á toppi 5. riðils með 16 stig, einu stigi meira en Þýskaland. Liðin mætast í hálfgerðum úrslitaleik um efsta sæti riðilsins þann 1. september næstkomandi á Laugardalsvelli áður en lokaleikur liðsins gegn Tékkum verður spilaður, á Laugardalsvelli, 4. september.

Ísland 2:0 Slóvenía opna loka
90. mín. Leik lokið Leik lokið á Laugardalsvelli með 2:0 sigri íslenska liðsins.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert