Heimir myndi spjara sig í enska boltanum

Guðni Bergsson var vonsvikinn með ákvörðun Heimis.
Guðni Bergsson var vonsvikinn með ákvörðun Heimis. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

„Ég var vonsvikinn með þetta, ég viðurkenni það,“ sagði Guðni Bergsson, formaður KSÍ, í samtali við mbl.is, um þá ákvörðun að Heimir Hallgrímsson hætti sem landsliðsþjálfari karlaliðsins í dag. 

Guðni segist hafa rætt við Heimi og reynt að sannfæra hann um að vera áfram, að lokum tók Heimir hins vegar þá ákvörðun að hætta. 

„Við ræddum þetta aftur og aftur og eins og eðlilegt er verður maður að sætta sig við þetta og virða hans ákvörðun. Ég skil hana þótt ég telji að það hafi verið rök fyrir því að hann myndi halda áfram. Þetta er niðurstaðan og við verðum að lifa með þessari ákvörðun og finna hæfan eftirmann.

Við höfum spjallað mikið saman síðustu daga og það hefur verið fínt. Þótt þetta séu vonbrigði af okkar hálfu höfum við gert þetta í mikilli vinsemd og menn eru gríðarlega þakklátir fyrir framlag Heimis til íslenskrar knattspyrnu og landsliðsins undanfarin ár. Við metum það til mikils og höfum það í huga. Við verðum að vera með jákvætt hugarfar gagnvart framhaldinu. Við vinnum úr þessari stöðu og allt gott tekur enda og við erum á þeim tímapunkti í dag.“

Heimir Hallgrímsson.
Heimir Hallgrímsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kom það til greina að Heimir myndi stýra liðinu í Þjóðardeildinni áður en hann hætti? 

„Það kom til greina en hugurinn hans var á reiki. Þetta var stór og erfið ákvörðun fyrir hann. Þetta er niðurstaðan og við sýndum honum þá virðingu að gefa honum tíma til að finna þetta með sjálfum sér. Hann verður að taka ákvörðun fyrst og fremst fyrir sjálfan sig. Hann taldi þetta sanngjarnt gagnvart næsta þjálfara og KSÍ.“

Guðni var framan af með góða tilfinningu fyrir því að Heimir myndi halda áfram. Eftir því sem tíminn leið breyttist það hins vegar. 

„Ég var bjartsýnn framan af, mér fannst þetta líta vel út eftir fyrsta spjallið okkar. Síðan kom það á daginn að hann leiðist í þá átt að segja þetta gott og að hann væri kominn á endastöð með liðið. Þetta kom mér ekki stórlega á óvart en ég var að vonast eftir hinni lendingunni.“

Nú fer vinna í að finna eftirmann Heimis en eins og gefur að skilja er sú vinna ekki komin langt. 

„Við erum að ræða málin núna og fara yfir hvernig hlutirnir standa og í framhaldinu verðum við að finna lausn í þessu.“

Heimir sagði í viðtali við mbl.is fyrr í dag að hann hefði áhuga á að vinna með félagsliði í enskumælandi umhverfi. Guðni spilaði lengi á Englandi og segir hann Heimi geta stýrt liði þar í landi.

„Ég held það, hann hefur alla burði til þess. Hann er frábær þjálfari, hann er með sterkan karakter og kominn með góða reynslu. Ég vona sannarlega að hann fái virkilega verðugt og gott tækifæri á erlendri grundu, það verður spennandi fyrir okkur að fylgjast með því,“ sagði Guðni að endingu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert