Eitt sterkasta lið sem hefur komið hingað

Eyjólfur Sverrisson
Eyjólfur Sverrisson mbl.is/Eggert Jóhannesson

Eyjólfur Sverrisson ræddi við mbl.is eftir 7:2-tap lærisveina hans í U21 árs landsliðinu í fótbolta á móti Spáni á Fylkisvellinum í kvöld í lokaleik liðsins í undankeppni EM. Hann hrósaði spænska liðinu í leikslok. 

„Við vorum að spila á móti einu sterkasta liði sem hefur komið til Íslands. Fabián Ruiz var t.d. í byrjunarliði Napoli á móti Liverpool í Meistaradeildinni. Við vissum að þetta væri gríðarlega öflugt lið og þeir eru flestir eldri en okkar leikmenn.

Þetta er kennslubókardæmi um hvernig við getum bætt varnarleikinn og hvernig við viljum ekki spila á móti svona sterku liði. Við eigum að loka hjá hafsent og bakverði og ekki að hleypa þeim út, ekki leyfa þeim að fara inn í.“

Eyjólfur var nokkuð sáttur við sóknarleik sinna manna, en margt mátti betur fara í varnarleiknum, eins og sjö mörk andstæðinganna gefa til kynna. 

„Við áttum nokkra sóknartilburði sem voru fínir en það þarf að vinna vel í varnarleiknum, við hefðum getað spilað hann mikið betur. Færslurnar voru ekki nógu góðar. Við töluðum um að hleypa þeim ekki upp á miðjuna en við fáum fyrstu fjögur mörkin á okkur þannig. Við breyttum í seinni hálfleik en þá fóru þeir að skora fyrir utan. Þetta var mjög erfitt.“

Hann er nokkuð ánægður með undankeppnina í heild sinni og þá sérstaklega sóknarleikinn í henni. 

„Hún er búin að vera nokkuð góð. Það var mest svekkjandi að tapa fyrir Albaníu hérna heima, 3:2. Við höfum verið að skora mikið og verið sterkir í sókn en ekki nógu öflugir í vörn. Við erum búnir að vera að spila á ungu liði og 80% af liðinu er gjaldgengt í næsta landslið. Það segir líka söguna,“ sagði hann. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert