Togstreita er vægt til orða tekið

Geir Þorsteinsson var formaður KSÍ í tíu ár á árunum …
Geir Þorsteinsson var formaður KSÍ í tíu ár á árunum 2007-2017. mbl.is/Árni Sæberg

Geir Þorsteinsson sagði í samtali við mbl.is í dag að það sé mikil togstreita á milli aðildarfélaga KSÍ og knattspyrnusambandsins og þess vegna hefur hann ákveðið að bjóða sig fram til formanns KSÍ á nýjan leik en hann gegndi embættinu á árunum 2007 til ársins 2017. Geir steig til hliðar árið 2017 og við tók Guðni Bergsson en Geir segist hafa verið orðinn þreyttur í starfi og fundið fyrir leiða. Hann og Guðni munu nú berjast um formannssætið á ársþingi KSÍ sem fram fer 9. febrúar næstkomandi á Hilton Reykjavík Nordica.

„Þegar Guðni tilkynnti um framboð sitt þá settist ég niður og fór yfir málin. Það vantaði smá gleði hjá mér til þess að halda áfram enda hef ég eytt síðustu 35 árum í að starfa fyrir íslenska knattspyrnu. Á þessum tiltekna tímapunkti leið mér eins og sprunginni blöðru og það var í raun bara kominn tími á mig. Ég steig ekki til hliðar af ótta við mótframboð Guðna enda engin ástæða til þess. Uppgangurinn innan KSÍ hafði verið mikill og sambandið stóð mjög vel á öllum sviðum.“

Geir telur að KSÍ sé ekki að ganga í takt við vilja aðildarfélaganna í mörgum málefnum og því þurfi að breyta.

Geir Þorsteinsson hefur starfað fyrir knattspyrnuhreyfinguna í 35 ár.
Geir Þorsteinsson hefur starfað fyrir knattspyrnuhreyfinguna í 35 ár. mbl.is/Golli

Mikilvægt að allir gangi í sömu átt

„Það er mikil togstreita á milli aðildarfélaganna og KSÍ og mun meiri en kannski sést á yfirborðinu. Það er mikilvægt að KSÍ gangi í sömu átt og aðildarfélögin því það eru jú félögin í landinu sem móta stefnu KSÍ. Eins og staðan er í dag hefur knattspyrnusambandið verið að standa fyrir ákveðnum hlutum sem aðildarfélögin sjá ekki sem forgangsatriði innan knattspyrnuhreyfingarinnar og að tala um togstreitu er vægt til orða tekið. Það er ekki mikil ánægja með fyrirhugaða ráðningu á yfirmanni knattspyrnumála hjá KSÍ enda hefur ekki verið kallað eftir því innan aðildarfélaga KSÍ.“

Eitt helsta baráttumál Guðna Bergssonar var að ráða yfirmann knattspyrnumála hjá KSÍ en Geir segir að það sé ekki það sem aðildarfélögin hafi kallað eftir.

Geir Þorsteinsson var formaður KSÍ þegar Lars Lagerbäck og Heimir …
Geir Þorsteinsson var formaður KSÍ þegar Lars Lagerbäck og Heimir Hallgrímsson tóku við íslenska karlandsliðinu árið 2011. mbl.is/Golli

Þarf að styrkja rekstrargrundvöll félaganna

„Þessi aðgerð ein og sér mun kosta töluverða fjármuni og það eru ekki allir sáttir með það. KSÍ verður að ganga í takt við vilja aðildarfélaganna og eftir að ég steig til hliðar fyrir tveimur árum hefur þessi togstreita bara aukist. Persónulega fannst mér ég vera þeim eiginleikum gæddur að geta sameinað knattspyrnufélögin og knattspyrnuhreyfinguna og það er einn minn helsti styrkur. Að sama skapi þurfum við að taka upp ný vinnubrögð og nýtt skipulag innan KSÍ og það er eitt af mínum helstu baráttumálum, ásamt því að hjálpa til við að styrkja rekstrargrundvöll félaganna.“

Geir er bjartsýnn fyrir formannskjörið 9. febrúar og finnur fyrir miklum stuðningi að eigin sögn.

„Ég hef fundið fyrir miklum stuðningi innan aðildarfélaga KSÍ og það er vissulega ákveðinn hópur innan knattspyrnuhreyfingarinnar sem er að kalla eftir breytingum,“ sagði  Geir Þorsteinsson í samtali við mbl.is.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert