Glímir við matarfíkn - Laug að Frey

Lára Kristín Pedersen hefur verið meðal bestu miðjumanna Pepsi-deildarinnar síðustu …
Lára Kristín Pedersen hefur verið meðal bestu miðjumanna Pepsi-deildarinnar síðustu ár þrátt fyrir veikindi sín. mbl.is/Eggert

Lára Kristín Pedersen, leikmaður Þórs/KA og einn besti miðjumaður Pepsi-deildarinnar, hefur glímt við matarfíkn í mörg ár og meðal annars sleppt landsliðsæfingum og Evrópuleik af þeim sökum.

Lára Kristín opnar sig um málið í viðtali við hlaðvarpsþáttinn Miðjuna í dag þar sem hún lýsir veikindum sínum, árunum áður en hún áttaði sig á vandanum og glímunni við að halda fíkninni í skefjum. Hún hefur unnið tvo Íslandsmeistaratitla og tvo bikarmeistaratitla með Stjörnunni en þessi 24 ára knattspyrnukona hefur misst af fjölda æfinga og jafnvel leikjum í gegnum tíðina vegna sinna veikinda.

„Ég get ekki alveg sagt til um akkúrat hvenær [ég áttaði mig á því að ég væri með matarfíkn]. Þetta er oft ferli sem tekur nokkur ár að átta sig á, og oft áratugi hjá fólki, þar sem að þetta er ekki það fyrsta sem maður sækir í, að vilja kalla sig fíkil. Ég var rétt undir tvítugu þegar ég fór að hugsa að þetta væri alls ekki eðlileg hegðun, og fór að skoða þetta betur,“ segir Lára Kristín í viðtalinu við Magnús Má Einarsson, ritstjóra Fótbolta.net.

Stal mat af stelpunum sem hún bjó með

„Hvernig lýsir þetta sér? Óeðlilegt samband við mat. Óeðlileg hegðun í kringum mat. Óeðlileg löngun. Þetta er svo hegðunartengd fíkn. Þetta er ekki bara það að manni finnist gott að borða, maður breytir allri sinni hegðun í kringum mat,“ segir Lára Kristín og nefnir sem dæmi dvöl sína í Bandaríkjunum þegar hún var í háskólaboltanum:

„Maður er alltaf í felum. Feluleikurinn varðandi mat byrjaði fyrst þegar ég var í háskólaboltanum í Bandaríkjunum. Ég bjó með sjö öðrum stelpum, svo við vorum átta saman í stóru húsi. Öll mín dvöl þarna snerist um að tryggja að enginn væri staddur í húsinu svo ég gæti borðað allt sem ég vildi borða. Ekki hollan mat, maður treður bara einhverju í sig sem gefur mesta „kickið“. Ég var líka ánægð með að búa með sjö stelpum því ég var alltaf að stela mat og gat þá dreift því á milli þeirra. Það hefði komist upp um mig ef ég hefði bara búið með tveimur. Ég myndi ekki stela svo mikið sem penna af þessum stelpum en það var ekkert mál fyrir mig að stela eða ljúga [til að komast í mat].“

Lára Kristín Pedersen skallar boltann í leik með Stjörnunni. Hún …
Lára Kristín Pedersen skallar boltann í leik með Stjörnunni. Hún skipti yfir til Þórs/KA í vetur. mbl.is/Eggert

Sleppti Evrópuleik og landsliðsæfingum

Lára Kristín kveðst hafa hætt að mæta í skóla og á æfingar en mætt skilningi þjálfara sinna, bæði í Bandaríkjunum og svo hjá Stjörnunni sem hún lék með frá 2014-2018. Hún hafi lengi talið að um þunglyndi væri að ræða og notað það sem afsökun sem þjálfararnir hafi sýnt skilning. Hún sleppti til að mynda Evrópuleik í Rússlandi undir lok árs 2014: „Þetta var fyrsti skellurinn, þegar kemur að fótboltaferlinum. Ég spilaði ekki þennan leik því ég treysti mér ekki til þess,“ segir Lára Kristín, og bætir við að fíknin hafi einnig haft áhrif á veru hennar í landsliðinu:

„Ég hef tvisvar ef ekki þrisvar þurft að hitta Freysa [Frey Alexandersson, fyrrverandi landsliðsþjálfara] fyrir landsliðsæfingar sem ég var boðuð á og treysti mér ekki á. Þá var ég búin að liggja á beit í margar vikur áður en ég átti að mæta, og í rauninni bara lýg að honum að ég sé þunglynd og geti ekki mætt á æfingu. Hann sýndi því skilning,“ segir Lára.

Tengdi við áfengisfíknina

Steininn tók úr seint á tímabilinu 2015 þegar hún missti sæti sitt í byrjunarliði Stjörnunnar. Í kjölfarið las Lára viðtal við Þórð Ingason, þáverandi markvörð Fjölnis og nú Víkings R., sem lýsti áfengisfíkn sinni. Lára kveðst hafa tengt við margt í því viðtali nema hvað fíkn hennar var í mat en ekki áfengi. Hún hafi leitað sér upplýsinga og í kjölfarið aðstoðar sem hún hafi fundið hjá konu sem reki matarfíknimiðstöð á Íslandi. Þar hafi hún fundið varanlega lausn sem hún vinni í á hverjum degi:

„Þetta kallast fráhald, þar sem maður heldur sig frá ákveðnum matartegundum sem valda matarfíkn. Svo vigtar maður allan sinn mat, borðar þrjár máltíðir en vigtar þær upp á gramm,“ segir Lára sem þarf alltaf að vera meðvituð um fíknina: „Ég hef ekki farið í gegnum þessi tvö ár án þess að misstíga mig. Þetta er ferli sem maður þarf að vinna í á hverjum degi.“

Viðtalið má hlusta á með því að smella hér.

Lára Kristín Pedersen í Evrópuleik með Stjörnunni en hún sleppti …
Lára Kristín Pedersen í Evrópuleik með Stjörnunni en hún sleppti eitt sinn Evrópuleik vegna fíknar sinnar. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert