Þjóðverjar nokkrum númerum of stórir fyrir Ísland

Íslenska karlalandsliðinu í knattspyrnu tókst ekki að koma knettinum í netið þegar liðið tók á móti Þýskalandi í J-riðli undankeppni HM 2022 á Laugardalsvelli í kvöld.

Þjóðverjar byrjuðu leikinn af krafti og Serge Gnabry kom þýska liðinu yfir strax á 5. mínútu. Leroy Sané fékk þá boltann utarlega á vinstri kantinum og hann átti hárnákvæma sendingu á fjærstöngina þar sem Gnabry var mættur og skoraði af öryggi.

Línuvörðurinn flaggaði rangstöðu en eftir að VAR-myndbandsdómgæslan hafði skoðað atvikið betur fékk markið að standa og staðan orðin 1:0.

Ísak Bergmann Jóhannesson fékk ágætis færi á 16. mínútu eftir frábæran samleik íslenska liðsins frá aftasta manni. Skot Ísaks fór hins vegar beint á Manuel Neuer í markinu sem sló boltann frá en þýski markvörðurinn var afar vel staðsettur í skotinu.

Þjóðverjar pressuðu stíft eftir þetta og Antonio Rüdiger tvöfaldaði forystu þýska liðsins tveimur mínútum síðar. Joshua Kimmich átti þá aukaspyrnu frá hægri sem fór beint á kollinn á þýska miðverðinum. Rüdiger var einn og óvaldaður í teignum og hann skallaði boltann af öryggi í fjærhornið.

Leikurinn fór svo gott sem fram á vallarhelmingi íslenska liðsins það sem eftir lifði fyrri hálfleiks en á 43. mínútu fékk Jóhann Berg Guðmundsson tækifæri til að minnka muninn, enn og aftur eftir laglegan samleik íslenska liðsins, en skot hans var laust og fór beint á Neuer í marki þýska liðsins.

Síðari hálfleikurinn hófst með miklum látum og strax á 48. mínútu slapp Timo Werner einn í gegn en skotið var slakt og fór beint á Hannes.

Mínútu síðar fékk Jóhann Berg Guðmundsson boltann á hægri kantinum. Hann keyrði inn á völlinn og átti þrumuskot í stöngina og út af 25 metra færi. Boltinn barst til Alberts Guðmundssonar sem kom boltanum í netið en hann var dæmdur rangstæður.

Þjóðverjar vöknuðu við þetta og Timo Werner slapp einn í gegn á 55. mínútu. Werner lagði boltann út á Kai Havertz sem hafði allan tímann í heiminum til að koma knettinum í netið en skotið fór rétt fram hjá.

Mínútu síðar barst boltinn til Leroys Sané í vítateigs íslenska liðsins. Sané lét vaða úr þröngu færi á nærstönginni og boltinn söng í þaknetinu.

Timo Werner fékk sannkallað dauðafæri til að koma knettinum í netið á 61. mínútu en frítt skot hans úr teignum fór yfir markið. Þremur mínútum síðar skoraði Leon Goretzka með föstu skoti af D-boganum en markið fékk ekki að standa þar sem sóknarmenn þýska liðsins voru fyrir innan og byrgðu Hannesi sýn.

Þjóðverjar sóttu án afláts eftir þetta og Timo Werner og Kai Havertz fengu báðir frábær færi á 66. mínútu en Hannes var vandanum vaxinn í marki íslenska liðsins og varði mjög vel í tvígang.

Timo Werner kom loksins boltanum í netið á 90. mínútu þegar boltinn barst til hans í vítateig íslenska liðsins eftir laglegt samspil Þjóðverja. Werner setti boltann í Hannes Þór og þaðan fór hann í stöngina og inn og lokatölur á Laugardalsvelli því 4:0, Þjóðverjum í vil.

Ísland er áfram í fimmta og næst neðsta sæti riðilsins með 4 stig eftir sex leiki en Þjóðverjar eru með 15 stig í efsta sætinu og hafa fjögurra stiga forskot á Armeníu sem er í öðru sætinu.

Ísland 0:4 Þýskaland opna loka
90. mín. Guðlaugur Victor Pálsson (Ísland) fer af velli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert