„Auðvitað þarf ég að skila úrslitum“

Arnar Þór Viðarsson landsliðsþjálfari (fyrir miðju) ásamt Eiði Smára Guðjohnsen …
Arnar Þór Viðarsson landsliðsþjálfari (fyrir miðju) ásamt Eiði Smára Guðjohnsen aðstoðarþjálfara og Halldóri Björnssyni markmannsþjálfara á æfingu á Laugardalsvelli í dag. Kristinn Magnússon

Arnar Þór Viðarsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, segist gera sér fulla greina fyrir því að hann sé ekki á neinum frípassa í starfi sínu þó uppbygging á nýju liði sé í gangi um þessar mundir.

„Það vita það allir á landinu að þetta er langtímaverkefni. Ég er þjálfarinn og ef ég myndi halda það sem þjálfari að ég geti bara falið mig á bak við það að ég sé að þróa lið í sjö ár, fótboltinn virkar ekki þannig. Ég á mér mína yfirmenn og þeir taka sínar ákvarðanir alveg eins og yfirmenn gera í sínum félagsliðum.

Það eina sem ég get gert er að vinna vinnuna mína og vinna sem best með leikmönnunum, starfsfólki KSÍ og svo framvegis. Svo eru einhverjir yfirmenn sem þurfa að taka einhverjar ákvarðanir einhvern tímann,“ sagði Arnar Þór á blaðamannafundi í höfuðstöðvum KSÍ í dag.

Hann bætti því við að hann átti sig á því að góð úrslit þurfi að fylgja uppbyggingunni.

„Auðvitað þarf ég líka að skila úrslitum. En ef það er einhver sem býst við því að nýtt lið sé tilbúið núna í lok árs eftir það sem við erum búnir að ganga í gegnum undanfarna sex mánuði þá væri það frekar ósanngjarnt að mínu mati. Það er bara mín skoðun.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert