Fyrsta Framþrennan í níu ár og sú fjórða á öldinni

Guðmundur Magnússon fagnar fyrsta marki sínu og Fram í kvöld.
Guðmundur Magnússon fagnar fyrsta marki sínu og Fram í kvöld. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Guðmundur Magnússon varð í kvöld fyrstur Framara til að skora þrennu í efstu deild karla í fótbolta í níu ár og sá fjórði á þessari öld.

Guðmundur gerði öll þrjú mörk Fram í fyrsta leik liðsins á nýja vellinum í Úlfarsárdal, í 3:3 jafntefli gegn ÍBV, en þetta er hans fyrsta þrenna á ferlinum í deildinni.

Síðastur Framara til að skora þrennu í deildinni var Hólmbert Aron Friðjónsson, núverandi leikmaður Lilleström í Noregi, en hann skoraði þrjú mörk í 4:1 sigri Fram gegn Þór á Laugardalsvellinum 16. júní árið 2013.

Almarr Ormarsson, sem nú leikur með Val, skoraði þrennu fyrir Fram á Laugardalsvellinum 23. ágúst 2010, í sigri gegn Selfyssingum, 3:1.

Sá sem skoraði fyrstur þrennu á 21. öldinni fyrir Framara var hinsvegar Ásmundur Arnarsson, núverandi þjálfari kvennaliðs Breiðabliks. Hann skoraði öll þrjú mörk Fram í 3:1 sigri gegn ÍBV á Hásteinsvelli í Vestmannaeyjum 1. ágúst árið 2001.

Pétur Ormslev og Guðmundur Torfason taka upphafsspyrnu leiks Fram og …
Pétur Ormslev og Guðmundur Torfason taka upphafsspyrnu leiks Fram og ÍBV. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Guðmundur Torfason og Pétur Ormslev sem tóku táknræna upphafsspyrnu Fram í leiknum, hafa báðir skorað þrennu fyrir Fram í deildinni. Guðmundur í 6:1 sigri gegn FH árið 1986 og Pétur í 3:1 sigri gegn Þrótti árið 1980.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert