EM: Sama þó Íslendingar skori fjögur mörk

Bruno Bini og Sigurður Ragnar Eyjólfsson hittust á leikvanginum í …
Bruno Bini og Sigurður Ragnar Eyjólfsson hittust á leikvanginum í Tampere í dag og það fór vel á með þeim. mbl.is/Golli

Bruno Bini, landsliðsþjálfari Frakka, sagði á blaðamannafundi í Tampere í dag að það skipti sig litlu máli þó Ísland hefði verið eina liðið sem skoraði hjá sínu liði í undankeppni Evrópumóts kvenna. Liðin mætast í fyrstu umferð úrslitakeppni EM í Finnlandi á morgun.

Ísland skoraði í báðum leikjum liðanna, vann fyrri viðureignina 1:0 en tapaði síðan 1:2 í Frakklandi.

„Við gerðum mistök í fyrri leiknum, fórum yfir þau og leiðréttum þau. Það kom vel í ljós í seinni leiknum þar sem við sigruðum 2:1. Vissulega var Ísland eina liðið sem skoraði hjá okkur í undankeppninni en það skiptir ekki öllu máli. Mér er sama þó Íslendingar skori fjögur mörk gegn okkur á morgun, svo framarlega sem við skorum fimm mörk," sagði Bini.

„Við erum með góða blöndu af yngri og eldri leikmönnum í liðinu um þessar mundir og ætlum að ná eins langt í þessari keppni og mögulegt er. Öll liðin standa jafnt að vígi í byrjun, allir spila með sama boltanum, en maður veit aldrei hvað gerist í fótboltaleik. Boltinn getur hafnað einum sentimetra innan við stöng og þá ertu hetja. Boltinn getur hafnað einum sentimetra utan við stöng, og þá ertu skúrkur.

Það eina sem er á hreinu er að við fáum þrjá leiki í hæsta gæðaflokki og stúlkurnar okkar mega vera ánægðar með það," sagði Bruno Bini sem tók við franska liðinu áður en undankeppnin hófst.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert