EM: Reynsluleysið varð okkur að falli

Katrín Jónsdóttir fremst í flokki á æfingu landsliðsins í Tampere …
Katrín Jónsdóttir fremst í flokki á æfingu landsliðsins í Tampere í dag. mbl.is/Golli

„Það er að síast smám saman inn hjá mér að við höfum þrátt fyrir allt sýnt í þessum tveimur leikjum að við eigum fullt erindi á þetta mót," sagði Katrín Jónsdóttir landsliðsfyrirliði í knattspyrnu eftir æfingu liðsins í Tampere í dag.

Íslenska liðið kom aftur til Tampere frá Lahti snemma í dag og fór fljótlega á æfingu á sama velli og það æfði á dagana sem það dvaldi í borginni í kringum leikinn gegn Frökkum. Allir leikmennirnir eru leikfærir eftir átökin gegn Noregi og allar tóku þátt í æfingunni.

Byrjunarliðið var í léttu prógrammi, lengst af undir stjórn Reynis Björnssonar læknis sem sjálfur var öflugur fótboltamaður á árum áður. Þær sem spiluðu lítið eða ekkert voru hinsvegar á fullri keyrslu undir stjórn Sigurðar Ragnars Eyjólfssonar og Guðna Kjartanssonar og varamarkverðirnir tveir tóku hressilega á því undir stjórn Guðmundar Hreiðarssonar.

Katrín sagði við mbl.is að hún væri fyrst og fremst svekkt yfir niðurstöðunni úr leikjunum tveimur gegn Frakklandi og Noregi. „Við höfðum sett okkur það markmið að komast í átta liða úrslit en það tókst ekki, sem er leiðinlegt. Með smá heppni hefðum við getað unnið báða þessa leiki. Þegar maður horfir til baka og skoðar sérstaklega leikinn við Frakka þá held ég að niðurstaðan sé sú að reynsluleysið hafi orðið okkur að falli.

Við létum atriði eins og vítaspyrnurnar hafa of mikil áhrif á okkur. Ef þetta hefði verið vináttulandsleikur er ég viss um að þær hefði ekki haft þessi áhrif og dregið svona úr okkur. Ég held að mikilvægi leiksins hafi orðið til þess að við létum mótlætið slá okkur of mikið útaf laginu.

Síðan finnst að þó við hefðum ekki skapað okkur nægilega mörg marktækifæri gegn Noregi í leiknum í gær, þá höfum við spilað jafnvel og norska liðið, og á köflum betur. Eitt gott færi sem þær fengu og náðu að nýta skildi liðin að.

Mér finnst við hafa sýnt að við eigum heima í úrslitakeppninni og um leið er mikilvægt fyrir okkur að sýna það og sanna í síðasta leiknum á sunnudaginn, gegn Þýskalandi.  Það er mikilvægt að enda mótið vel og fara sáttar frá því þó leikurinn sem slíkur skipti ekki máli," sagði Katrín Jónsdóttir.

Leikur Íslands og Þýskalands hefst á Tampere Stadium klukkan 13 að íslenskum tíma á sunnudaginn. Þýskaland er með 6 stig og hefur tryggt sér efsta sætið í riðlinum en Frakkland og Noregur eru með 3 stig og leika hreinan úrslitaleik um annað sætið og öruggan þátttökurétt í 8-liða úrslitunum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert