Ítalir höfðu betur í vítaspyrnukeppni

England er úr leik á EM í fótbolta eftir tap gegn Ítalíu í vítaspyrnukeppni. Hvorugu liðinu tókst að skora mark í venjulegum leiktíma né framlengingu.

Bæði lið fengu dauðafæri á upphafsmínútum leiksins en hann byrjaði mjög fjöruglega. Eftir því sem á leið leikinn fór að hægjast á þreyttum leikmönnum liðanna en Ítalir voru þó mun betri og skoruðu mark í framlengingu sem var réttilega dæmt af vegna rangstöðu.

Englendingar vörðust hetjulega í framlengingunni og tókst að koma leiknum í vítaspyrnukeppni þar sem útlitið var gott eftir að Montolivio skaut framhjá í annarri spyrnu Ítala.

Ashley Young og Ashley Cole klúðruðu aftur á móti sínum vítaspyrnum og á endanum var það Alessandro Diamanti sem skaut Ítalíu í undanúrslitin þar sem liðið mætir Þýskalandi.

Bein textalýsing frá leiknum:

5. umf: Alessandro Diamanti skorar fyrir Ítalíu og skýtur Ítölum í undanúrslitin, 2:4.

4. umf: Ashley Cole lætur Buffon verja hjá sér, 2:3

4. umf: Nocerino skorar fyrir Ítalíu, 2:3.

3. umf: Young skýtur í slánna hjá Buffon, 2:2.

3. umf: Pirlo skorar fyrir Ítalíu, 2:2. Vippaði í mitt markið, takk fyrir.

2. umf: Rooney skorar fyrir England, 2:1.

2. umf: Montolivio skýtur framhjá, 1:1.

1. umf: Gerrard skorar fyrir England, 1:1.

1. umf: Balotelli skorar fyrir Ítalíu, 0:1.

120. LEIK LOKIÐ, 0:0. Vítaspyrnukeppni þarf til að úrskurða um sigurvegara.

115. Ítalir skora en það er dæmt af vegna rangstöðu. Diamanti með fyrirgjöfina á kollinn á Nocerino sem er réttilega dæmdur rangstæður.

113. Ítalir sækja og sækja og Englendingar verða heppnir ef þeir koma þessu í vítaspyrnukeppni.

106. Það er eftir engu að bíða. Seinni hálfleikur framlengingarinnar er hafinn. Fimmtán mínútur eftir.

105.+1 Fyrri hálfleik framlengingar lokið, 0:0. 

101. STÖNGIN! Alessandro Diamanti með sendingu inn á teiginn sem enginn nær til en boltinn hafnar í stönginni. Joe Hart var búinn að missa af boltanum. Heppnir þarna, Englendingar.

100. Balotelli reynir skot á markið en Hart ver. Smá þolinmæði hjá Balotelli hefði komið félaga sínum í betra færi.

99. Framlengingin er nokkuð róleg enda bæði liðin þreytt. Jordan Henderson er kominn inn á sem varamaður fyrir Scot Parker.

91. Fyrri hálfleikur framlengingar er hafinn.

90.+4 VENJULEGUM LEIKTÍMA LOKIÐ, 0:0. Þetta er fyrsti markalausi leikurinn á öllu mótinu. Nú bíða okkar 30 mínútur af fótbolta og svo vítaspyrnukeppni ef hvorugu liðinu tekst að skora.

90.+3 Englendingar hársbreidd frá því að stela sigrinum. Eftir góða sókn sem hófst með því að Rooney vann boltann af Pirlo á Ashley Cole góða fyrirgjöf inn í teiginn sem Carroll skallar aftur fyrir markið. Þar er Rooney mættur og reynir hjólhestaspyrnu en boltinn yfir markið.

89. Noccerino fær fallega sendingu inn á teiginn og nær skoti að marki en Johnson kemst fyrir og bjargar í horn. Fyrsta snertingin algjört gull hjá Noccerino.

88. Það fátt sem bendir til þess að annað liðið skori áður en venjulegum leiktíma lýkur. Framlengingin bíður okkar.

83. Englendingar heimta víti þegar John Terry virðist rifinn niður í teignum. Proenca er ekki á sama máli.

76. Leikurinn hefur róast nokkuð en Gerrard á aukaspyrnu inn á teiginn sem Rooney nær ekki að gera sér mat úr. Gerrard lá á vellinum áðan með krampa. Vondar fréttir fyrir England ef þessi leikur fer í framlengingu.

65. Young kemst í dauðafæri í teignum en skýtur í varnarmann og þaðan í horn. Hodgson fórnar höndum á bekknum.

60. England gerir tvöfalda skiptingu. Walcott og Carroll koma inn á í stað Milner og Welbeck.

52. Hart nær ekki að halda þrumuskoti og Balotelli nær frákastinu en Hart ver aftur. Því frákasti nær svo Montolivio sem þrumar yfir úr öðru dauðafæri. Ítalir miklu hættulegri hér í byrjun síðari hálfleiks.

48. Ítalir í dauðafæri. Boltinn er skallaður aftur inn í teiginn eftir að Joe Hart kýldi hornspyrnu frá marki. Rangstöðugildran klikkar enn og aftur og De Rossi fær dauðafæri á markteig en skýtur framhjá.

46. Seinni hálfleikurinn er hafinn. Það verður leikið til þrautar í kvöld. Englendingar vilja eflaust ekki sjá vítaspyrnukeppni.

45. Hálfleikur Leikurinn hefur verið líflegur en það vantar mörkin.

40. Balotelli skaut yfir mark Ítala af stuttu færi eftir að hafa fengið skallasendingu frá Cassano.

38. Cassano er duglegur við að negla á markið fyrir utan teig. Nú loks hittir hann rammann en Hart er betri en enginn í markinu og ver skotið auðveldlega.

32. England í góðu færi hinum megin á vellinum. Rooney og Welbeck taka fallegan þríhyrning sem endar með skoti frá Welbeck úr góðri stöðu en boltinn yfir markið. 

32. Balotelli fær aftur glæsilega sendingu inn fyrir frá Montolivio. Hann reynir að klippa boltann í netið í fyrstu snertingu en skotið er beint á markið. Auðvelt fyrir Hart í rammanum.

25. Balotelli fær sendingu inn fyrir og er ekki rangstæður. John Terry nær þó að komast fyrir skotið áður en Balotelli setur boltann framhjá Hart í markinu.

19. Englendingar reyna mikið af fyrirgjöfum. Ein þeirra ekki langt frá því að heppnast en Rooney átti góðan skalla eftir sendingu frá Johnson sem fór rétt yfir.

12. Leikurinn byrjar mjög fjörlega. Englendingar sækja nokkuð stíft og Scott Parker á langskot framhjá eftir að Buffon kýldi boltann út úr teignum.

5. England í dauðafæri! Milner með fyrirgjöf frá hægri. Boltinn endar hjá Glen Johnson sem stendur óvaldaður fyrir framan markið en skot hans er meistaralega varið af Buffon.

3. STÖNGIN! Daniele De Rossi með magnað, viðstöðulaust skot langt fyrir utan teig sem smellur í stönginni. Hefði auðveldlega verið eitt allra flottasta mark mótsins hefði boltinn legið í netinu. Joe Hart var algjörlega sigraður.

1. Leikurinn er hafinn!

0. Verið er að leika þjóðsöngva landanna. Það styttist í þennan hörkuleik í Kiev.

0. Sagan er ekki með Englendingum í dag. Þeir hafa tapað sjö af tíu leikjum sínum í átta liða úrslitum á stórmótum.

0. Dómari leiksins er Pedro Proenca frá Portúgal sem er á meðal allra bestu dómara í Evrópu í dag. Hann dæmdi úrslitaleik Meistaradeildarinnar í maí.

0. Leikurinn fer fram á Ólympíuleikvanginum í Kiev sem var gerður upp fyrir mótið en hann tekur tæplega 65.000 manns í sæti. Það er 24 gráðu hiti í Kiev og þurrt.

0. England vann D-riðilinn með sjö stig en Frakkar urðu í öðru sæti í C-riðli á eftir Spáni með fimm stig. 

0. Prandelli gerir þrjár breytingar á ítalska liðinu frá síðasta leik. Balotelli byrjar frammi í stað Antonio Di Natale, Giorgio Chiellini er meiddur og hans stöðu í vörninni tekur Leonardo Bonucci og þá er Riccardo Montolivio á miðjunni í stað Thiago Motta.

0. England er með óbreytt lið frá sigurleiknum gegn Úkraínu. Margir bjuggust við því að Andy Carroll fengi tækifærið í dag en Hodgson heldur sig við Welbeck sem hefur byrjað alla leikina.

0. Byrjunarliðin eru klár. Hægt er að skoða þau hér að neðan.

Lið Englands: Hart; Johnson, Terry, Lescott, Cole; Milner, Gerrard, Parker, Young; Rooney, Welbeck

Lið Ítalíu: Buffon; Abate, Bonucci, Barzagli, Balzaretti; Montolivo, Pirlo, Marchisio, De Rossi; Cassano, Balotelli.

mbl.is

LEIKIR Í DAG - 24. APRÍL

Útsláttarkeppnin

LEIKIR Í DAG - 24. APRÍL

Útsláttarkeppnin