„Pressan er á þeim“

Ari Freyr Skúlason, leikmaður íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, var gífurlega svekktur eftir 2:2 jafntefli liðsins gegn Lettlandi í undankeppni EM í kvöld en liðið var tveimur mörkum yfir í hálfleik.

Kolbeinn Sigþórsson og Gylfi Þór Sigurðsson sáu til þess að Ísland kæmist tveimur mörkum yfir í fyrri hálfleik en síðari hálfleikur var allt öðruvísi. Lettar keyrðu á Íslendinga og uppskáru tvö mörk og jafntefli því staðreynd. Ari Freyr var vitanlega svekktur eftir leik.

„Þetta var hálf aulalegt verður maður að segja. Þeir fengu að keyra á okkur eftir þennan fína fyrri hálfleik þá áttum við bara að klára þetta,“ sagði Ari eftir leik.

„Slaka á er ekki rétta orðið en þeir fengu allt of margar skyndisóknir á okkur. Þetta var ekki alveg eins og við ætluðum okkur. Við hefðum alveg getað skorað tvö mörk í viðbót.“

„Við vildum enda þetta á góðum nótum hérna heima og ná í sigurleik fyrir fólkið svo þetta er mjög svekkjandi,“ sagði hann ennfremur.

Hægt er að sjá viðtalið í heild sinni hér fyrir ofan.

Ari Freyr Skúlason í leik með íslenska landsliðinu.
Ari Freyr Skúlason í leik með íslenska landsliðinu. mbl.is/Ómar
mbl.is

LEIKIR Í DAG - 19. APRÍL

Útsláttarkeppnin

LEIKIR Í DAG - 19. APRÍL

Útsláttarkeppnin