Arnór: Förum vonandi með sigur af hólmi

Arnór Guðjohnsen, fyrrverandi landsliðsmaður í knattspyrnu, er mættur til frönsku borgarinnar Nice til að styðja íslenska landsliðið í knattspyrnu. „Þetta verður örugglega skemmtilegur leikur og spennandi. Ég veit að strákarnir eiga eftir að standa sig,“ sagði Arnór í samtali við mbl.is í Nice.

„Vonandi náum við okkar besta leik og förum með sigur af hólmi,“ segir Arnór enn fremur sem hefur mikla trú á liðinu.

Arnór, sem er faðir Eiðs Smára Guðjohnsen sem er í EM-hópnum, segir að íslenska liðið hafi verið vel skipulagt og baráttuglatt. Hann segir að margir hafi talað um að liðið sé mjög varnarsinnað, en það sé skiljanlegt í ljósi þess að íslenska karlalandsliðið tekur nú þátt í stórmóti í fyrsta sinn.

Spurður út í leikinn í kvöld segir Arnór að Englendingarnir séu með ungt og kraftmikið lið. Þeim hafi aftur á móti ekki tekist að skora mikið. „Það er alveg ljóst að við þurfum á okkar besta að halda til að skáka þeim. En það getur gerst, ég er í engum vafa um það.“

Þá segir Arnór að það sé gott fyrir íslenska landsliðið að fá að spreyta sig gegn Englendingum. „Við þekkjum kannski Bretana best af öllum þessum liðum og þar af leiðandi kannski getum við á móti gert gott plan fyrir leikinn.“

Arnór segir enn fremur að byrjun leiksins, kannski fyrstu 15 mínúturnar, muni skipta miklu máli fyrir framhaldið. „Ef við náum að stríða þeim og halda þeim aftur þá er aldrei að vita nema það komi ákveðið paník á þá, en auðvitað eru þeir sterkir – það er ekki að neita því.“

mbl.is

LEIKIR Í DAG - 25. APRÍL

Útsláttarkeppnin

LEIKIR Í DAG - 25. APRÍL

Útsláttarkeppnin