Stuðningurinn gefur okkur vængi

Íslenskur fögnuður í leikslok.
Íslenskur fögnuður í leikslok. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

„Þetta var bara yndislegt,“ sagði Theódór Elmar Bjarnason eftir sigurinn magnaða á Englendingum, 2:1, í sextán liða úrslitum Evrópukeppninnar í knattspyrnu í Nice í kvöld.

Elmar kom inn á sem varamaður á 77. mínútu fyrir Kolbein Sigþórsson og var í fremstu víglínu til leiksloka en hann spilaði sinn 30. landsleik í kvöld. Með hvaða skilaboð fór hann inn á völlinn?

„Skilaboðin mín voru bara að hlaupa og berjast í þeim, þannig að þeir fengju ekki of mikinn tíma, og halda boltanum sem lengst þegar ég fengi hann. Það gekk ágætlega, ég hefði reyndar átt að fá nokkrar aukaspyrnur sem ég fékk ekki, en ég náði að jagast í þeim og drepa svolítinn tíma þarna uppi í hornunum. Svo kom eitt dauðafæri út úr þessu, svo ég er ágætlega sáttur með mína innkomu.

Kom þér á óvart hvað Englendingarnir ógnuðu lítið?

„Ég held að þeir hafi reynt sitt besta en ég hef bara aldrei séð annan eins varnarleik. Kári, Raggi, Ari og Birkir, sérstaklega þó Raggi, voru frábærir. Raggi var í sérflokki, ef hann verður ekki keyptur núna, þá verða það stór mistök.

Voruð þið stressaðir í kvöld? Það var eins og Englendingar gætu bara ekki skapað sér færi.

„Mér leið eins og Englendingar væru með þunga þjóðarinnar á bakinu á meðan að þjóðin okkar bar okkur áfram í þessu. Það er stór munur þar á. Við finnum bara hvernig stuðningur þjóðarinnar gefur okkur vængi. Við fundum hvernig þeir bognuðu smátt og smátt undan pressunni og á endanum var þetta bara verðskuldað.“

Hvernig var eiginlega stemmningin í klefanum eftir leik?

„Hún var ótrúleg. Menn voru bara syngjandi og dansandi, hringjandi í fjölskyldumeðlimi sem voru bara í tárum. Þetta var óendanlega ljúf tilfinning. Við viljum bara ekki að þetta stoppi, við viljum bara halda áfram. Þetta er bara fáránlegt.“

Hvernig er að vera komnir í átta liða úrslit á EM í Frakklandi?

„Þetta er eins ótrúlegt og það gerist. Fáránlegasta Disneymynd hefði ekki getað verið með þetta svona. Hvernig haldið þið að það hefði litið út í bíómynd ef Raggi hefði skorað úr hjólhestaspyrnunni líka? Það hefði enginn trúað því. En þetta er að detta fyrir okkur vegna þess að við vinnum sem liðsheild og menn eru að stíga upp á ótrúlegan hátt.“

Þið eruð farnir að kannast við ykkur á Stade de France, ekki satt?

„Ja, við erum góðir á Stade de France!" sagði Theódór Elmar Bjarnason.

mbl.is

LEIKIR Í DAG - 18. APRÍL

Útsláttarkeppnin

LEIKIR Í DAG - 18. APRÍL

Útsláttarkeppnin