Víkingaklappið kom frá Skotlandi

Stuðningsmenn íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu hafa síðustu misseri, og ekki hvað síst á Evrópumótinu í Frakklandi, vakið athygli fyrir „víkingaklappið“, eins og erlendir fjölmiðlar hafa kallað það.

Flestir ættu að vera farnir að þekkja víkingaklappið og HÉR má sjá þegar leikmenn og stuðningsmenn fögnuðu með þeim hætti eftir sigurinn á Englandi í gærkvöld. En hvaðan er klappið komið?

Segja má að Íslendingar hafi fengið víkingaklappið að láni frá Skotlandi. Þegar Stjarnan mætti skoska liðinu Motherwell, í forkeppni Evrópudeildarinnar árið 2014, klöppuðu skoskir stuðningsmenn með þessum hætti. Silfurskeiðin, stuðningsmannasveit Stjörnunnar sem skarað hefur fram úr meðal stuðningsmannasveita hér á landi síðustu ár, heillaðist af þessu og ákvað að nýta klappið til að hvetja sína leikmenn áfram.

Þegar Silfurskeiðin tekur „víkingaklappið“ endar hún á því að syngja „Frá Stjörnunni, ég aldrei vík. Sú tilfinning, er engu lík.“ Stuðningsmenn íslenska landsliðsins hafa hins vegar hingað til látið klappið, og „hú-ið“ ómissandi, duga hingað til.

Íslensku leikmennirnir tóku þátt í víkingaklappinu í gærkvöld.
Íslensku leikmennirnir tóku þátt í víkingaklappinu í gærkvöld. mbl.is/Skapti Hallgrímsson
mbl.is

LEIKIR Í DAG - 20. APRÍL

Útsláttarkeppnin

LEIKIR Í DAG - 20. APRÍL

Útsláttarkeppnin