Óttast ekki þegar Lars hættir

Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði íslenska landsliðsins.
Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði íslenska landsliðsins. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Aron Einar Gunnarsson fyrirliði íslenska landsliðsins í knattspyrnu óttast ekki að brotthvarf Lars Lagerbäck úr starfi landsliðsþjálfara eftir Evrópumótið í Frakklandi muni hafa neikvæð áhrif á liðið.

Mbl.is settist niður með fyrirliðanum í Annecy í Frakklandi í dag en á sunnudagskvöld verður Aron í eldlínunni með landsliðinu þegar það mætir gestgjöfum Frakka í átta liða úrslitunum á EM á Stade de France, þjóðarleikvangi Frakka.

Getur Ísland haldið sér á þessu stalli í framtíðinni og hræðist  þú þegar Lars Lagerbäck yfirgefur liðið?

„Ég óttast ekkert þegar Lars fer frá okkur. Ég veit að Heimir hefur lært heilmikið af Lars og leikmenn virða Heimi jafn mikið og Lars. Vissulega er karlinn stór karakter eins og margir vita en ég hræðist það ekki að þeir leikmenn sem eiga vonandi tvær undankeppnir eftir fara eitthvað að slappa af. Nú hafa menn fengið smjörþefinn að spila í lokakeppni og af hverju ættum við ekki vilja gera það aftur.

Ég held að það sé mjög mikilvægt fyrir okkur að hugsa um það hvernig við byrjun næstu undankeppni. Við eigum leik á móti Úkraínu úti í haust og ég held að það sé mikilvægt að menn verði búnir að negla sig niður á jörðina eftir Evrópumótið sem hefur verið mikil upplyfting fyrir íslenskan fótbolta. Við erum ekki orðnir saddir og erum ekki hættir.

Ég veit að Heimir er byrjaður að undirbúa næstu undankeppni. Við fáum ekki nóg af hvor öðrum enda hópurinn gríðarlega samhentur og samstilltur. Við þurfum að halda því áfram og ekki fara fram úr okkur,“ sagði Aron Einar.

Ítarlegra viðtal verður við Aron Einar í Morgunblaðinu á morgun

mbl.is

LEIKIR Í DAG - 19. APRÍL

Útsláttarkeppnin

LEIKIR Í DAG - 19. APRÍL

Útsláttarkeppnin