Sá föður sinn myrða móður sína

Jakub Blaszczykowski fagnar marki gegn Sviss með því að lyfta …
Jakub Blaszczykowski fagnar marki gegn Sviss með því að lyfta höndum til himins og minnast móður sinnar. AFP

Vítaspyrnukeppnir geta verið ósanngjarnar og margir fundu eflaust til með Pólverjanum Jakub Blaszczykowski sem sá markvörð Portúgala verja spyrnuna frá sér í viðureign liðanna í 8-liða úrslitum EM í gær. Fáir þekkja þó þær raunir sem Blaszczykowski hefur þurft að ganga í gegnum um ævina. Sérstaklega þá raun að horfa upp á föður sinn myrða móður sína.

Błaszczykowski, eða Kuba eins og hann er oftast kallaður, fæddist í bænum Truskolasy nálægt borginni Czestochowa í Póllandi árið 1985. Ólst hann þar upp hjá foreldrum sínum. Sýndi hann snemma mikla knattspyrnuhæfileika og vakti fljótlega athygli stærri liða. 

Aðeins tíu ára gamall lenti hann í lífsreynslu sem var nærri búin að binda enda á knattspyrnuferil hans. Zigmund faðir hans stakk þá Önnu móður hans til bana á heimili þeirra, beint fyrir framan augun á hinum unga Jakub. 

Frændi hans kom honum aftur í fótboltann

„Ég hef aldrei skilið hvað gerðist. Ég spyr mig reglulega að því hvers vegna þetta gerðist. Ég mun þurfa að lifa með þessu alla mína ævi,“ hefur Błaszczykowski sagt um þessa átakanlegu upplifun sína. 

Zigmund var í kjölfarið dæmdur í fangelsi og Jakub missti allan áhuga á knattspyrnu. Hann og Dawid bróðir hans fluttust þá til ömmu þeirra sem ól þá upp.

„Ég veit ekki hvað ég hefði gert án ömmu minnar, eða hvar ég hefði endað. Ég geri mitt besta núna til þess að gera ömmu stolta og hamingjusama og til þess að endurgjalda henni allt sem hún gerði fyrir mig og bróður minn þegar við þurftum á hjálp að halda,“ sagði Blas í viðtali við pólska sjónvarpsstöð árið 2012.

Það var frændi Jakubs, hinn mikli knattspyrnusnillingur Jerzy Brzezcek, sem fékk Jakub til að snúa aftur á knattspyrnuvöllinn. Brzezcek er fyrrum fyrirliði pólska landsliðsins og stórt nafn í pólskri knattspyrnusögu.

„Þetta var erfiður tími fyrir mig og er mér enn mjög erfitt. Mér var alveg sama um fótbolta. Lífið missti tilganginn og ég varð að finna tilganginn aftur. Frændi minn kom mér aftur á braut knattspyrnunnar,“ sagði Błaszczykowski.

Var viðstaddur jarðaför föður síns

Blas tjáði sig ekki um þessa upplifun við fjölmiðla fyrr en mörgum árum seinna, eftir andlát föður síns. „Áður fyrr var þetta eitthvað sem ég gat ekki talað um. Ég reyndi að gleyma þessu en ég gat það ekki. En núna er ég nógu þroskaður til að tala um þetta,“ sagði Blas árið 2012, skömmu eftir að hann var viðstaddur jarðarför föður síns sem lést sama ár. 

Jakub Blaszczykowski eftir að markvörður Portúgala varði spyrnuna frá honum …
Jakub Blaszczykowski eftir að markvörður Portúgala varði spyrnuna frá honum í gærkvöldi. AFP

Ferill Błaszczykowskis fór virkilega á flug við dvöl hans hjá þýska liðinu Borussia Dortmund. Þessi eldsnöggi kantmaður var mikilvægur leikmaður í liðinu sem tryggði sér þýska meistaratitilinn undir stjórn þjálfarans Jurgens Klopps. Alls lék hann með hinum gulklæddu í átta ár áður en hann gekk til liðs við lið Fiorentina á Ítalíu í fyrra sumar á láni. Hann er einnig mikilvægur leikmaður fyrir pólska landsliðið. 

Trúin er honum mikilvæg

Trúin hefur reynst Błaszczykowski mikilvæg en hann er kaþólikki og segist lesa í biblíunni á hverjum einasta degi. „Ég trúi því að móðir mín vaki yfir mér. Ég hef gengið í gegnum erfiðleika á ævinni en ég hef sigrast á þeim öllum og ég tel að það sé vegna þess að hún vakir yfir mér og hjálpar mér,“ sagði Blas árið 2012. Öllum mörkum sínum fagnar Blas á sama hátt: Lyftir höndum til himins og þakkar móður sinni fyrir stuðninginn. 

„Fólk sem horfir á mig utanfrá heldur að ég hafi allt. Pening, flottan bíl, spila fyrir flott félag, ég á allt sem ég þarf. En það er ekki þannig. Mikilvægasta persónan í mínu lífi er ekki lengur hér. Ég verð alltaf hamingjusamur með fjölskyldu minni en það verður alltaf ör á hjarta mínu,“ segir Błaszczykowski.

mbl.is

LEIKIR Í DAG - 29. MARS

Útsláttarkeppnin

LEIKIR Í DAG - 29. MARS

Útsláttarkeppnin