Fyrirliði Frakka: Stendur ógn af Gylfa

Hugo Lloris
Hugo Lloris AFP

Hugo Lloris, markvörður og fyrirliði franska landsliðsins, hrósaði Gylfa Þór Sigurðssyni, fyrrverandi félaga sínum hjá Tottenham, á fréttamannafundi á Stade de France í morgun.

„Ég eyddi tíma með Gylfa hjá Tottenham. Hann er æðislegur náungi og mér finnst hann frábær leikmaður. Því miður þar sem hann er Íslendingur hefur hann ekki náð að sýna sig á stóra sviðinu. Hann átti frábært tímabil með Swansea og það stafar ógn af honum í föstum leikatriðum. Hann getur skorað með hægri og vinstri og er frábær skotmaður,“ sagði Lloris en Frakkar mæta Íslendingum í 8-liða úrslitum Evrópumótsins í knattspyrnu á Stade de France annað kvöld.

Um íslenska liðið sagði Lloris:

„Það er engin tilviljun að Ísland komst áfram. Liðsheildin var frábær hjá íslenska liðinu í sigrinum gegn Englendingum og leikmenn sýndu að þeir eru með stórt hjarta. Þeir vinna vel saman, föstu leikatriðin þeirra og innköstin eru hættuleg og við berum mikla virðingu fyrir Íslandi.“

mbl.is

LEIKIR Í DAG - 18. APRÍL

Útsláttarkeppnin

LEIKIR Í DAG - 18. APRÍL

Útsláttarkeppnin