Jón Daði er hvatning um að gefast ekki upp

Jón Daði Böðvarsson
Jón Daði Böðvarsson AFP

Jón Daði Böðvarsson hefur unnið hug og hjarta þjóðarinnar eftir frammistöðu sína með íslenska landsliðinu. Það er ljóst að hann er gríðarlega sterk persóna eins og kemur í ljós í viðtali við móður hans, Ingibjörgu Ernu Sveinsdóttur, í Fréttatímanum.

Jón Daði var ungur greindur með athyglisbrest og að sögn var hann stundum erfiður við að eiga í skólanum og sumir skólafélagar hans gerðu í því að æsa hann upp. Þá var hann settur á róandi lyf til að vinna gegn ofvirkni. Hann varð fyrir stríðni og ákveðið einelti var farið að gera vart við sig.

Það varð svo slæmt að ég talaði við skólann á Selfossi, sem greip strax inn í. Það var hringt í mig úr skólanum þegar hann hljóp út á sokkunum, eða til að láta mig vita hvað hann hefði verið erfiður. Sjálf datt ég stundum í þá gryfju að hundskamma hann. Ég var ekki með neinar kennslubækur í þessu og hef stundum þurft að biðja hann fyrirgefningar á minni frammistöðu. En hann var ekkert vandamálabarn,“ segir Ingibjörg við Fréttatímann.

En Jón Daði blómstraði hins vegar í fótboltanum. „Fótboltinn var leið Jóns Daða til að virkja sína sterkustu hliðar og ef hann hefði ekki alltaf haft þetta keppnisskap, sem stundum kom honum í vesen, væri hann ekki á þessum stað í dag.“

Fótbolti ekki bara fyrir þá sem koma úr réttu fjölskyldunum

Ingibjörg segir í viðtalinu að hún hafi lengi vel verið einstæð þriggja barna móðir og oft hafi verið erfitt að ná endum saman. Jón Daði er mjög meðvitaður um allt það sem liggur að baki hans ferli og vill að einstaklingar með svipaðan bakgrunn og hann sjálfur trúi á sig.

Honum er mjög umhugað um að fótbolti sé fyrir alla, ekki bara þá sem koma úr réttu fjölskyldunum eða eiga peninga. Hann vill vera hvatning fyrir stráka með svipaðan bakgrunn og hann, og minna þá á að halda í drauminn sinn, styrkja það sem þeir eru góðir í. Gefast ekki upp. Ekki velta sér of mikið upp úr því þótt þeir hafi verið reknir úr tíma,“ segir Ingibjörg.

Sem dæmi um þetta stofnaði Jón Daði styrktarsjóð fyrir fótboltakrakka eftir að hafa verið valinn íþróttamaður Árborgar í annað sinn árið 2012. Hann vildi að allir sem þess óskuðu gætu æft knattspyrnu þrátt fyrir að eiga ekki fyrir æfingagjöldum eða takkaskóm.

Hann heldur alltaf áfram og hefur þess vegna náð svona langt. Ég hef ekki unnið neina sigra fyrir hann, hann hefur gert það sjálfur og við erum öll í fjölskyldunni að rifna úr stolti af honum,“ segir Ingibjörg móðir hans enn fremur í Fréttatímanum.

Jón Daði Böðvarsson fagnar marki sínu gegn Austurríki.
Jón Daði Böðvarsson fagnar marki sínu gegn Austurríki. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

LEIKIR Í DAG - 29. MARS

Útsláttarkeppnin

LEIKIR Í DAG - 29. MARS

Útsláttarkeppnin