Abily mun ekki leyfa mér að svindla

„Ég er fjórum árum eldri og reyndari núna, og vonandi næ ég að toppa mitt form,“ segir Guðbjörg Gunnarsdóttir, landsliðsmarkvörður í knattspyrnu, sem kemur til með að standa í ströngu gegn Frökkum á EM í Hollandi annað kvöld.

Guðbjörg átti frábært mót þegar Ísland komst í 8-liða úrslit á EM í Svíþjóð fyrir fjórum árum. Ísland þarf líklega á svipaðri frammistöðu hennar að halda að þessu sinni til að komast langt í Hollandi, ekki síst gegn Frökkum:

„Við höfum ekki mætt jafngóðu liði og Frakklandi í langan tíma. Ég get helst borið það saman við Japan, sem er samt allt öðruvísi lið. Þær eru mikið hraðari, sterkar og snarpar, og ótrúlega flottir íþróttamenn. Þetta verður erfitt en það er allt hægt í fótbolta. Davíð Snorri [Jónasson, leikgreinandi landsliðsins] er búinn að stúdera þær í tætlur og gefa okkur ótrúlega góðar upplýsingar, en svo má ekki gleyma að við getum ekki verið eins og einhver vélmenni sem fara eftir öllu. Við verðum að leyfa leiknum að koma til okkar og spila hann, erum með marga reynslumikla leikmenn og verðum að þora að fara eftir eigin tilfinningu,“ sagði Guðbjörg.

Frakkar hafa í sínum röðum urmul frábærra leikmanna en aðspurð hvort hún skoðaði sérstaklega einhverja ákveðna leikmenn nefndi Guðbjörg Camille Abily og Eugénie Le Sommer. Báðar urðu þær Evrópumeistarar með Lyon í maí. Le Sommer hefur skorað 60 mörk í 137 landsleikjum og Abily 36 mörk í 179 leikjum.

„Auðvitað kíkir maður alltaf extra á þær sem skora mest. Ég er alveg meðvituð um að Le Sommer er búin að skora fullt, og að Abily mun alveg skjóta á markið ef hún sér að ég er að svindla til að stela einhverjum fyrirgjöfum. Ég er meðvituð um hvað þær geta gert, án þess að hugsa of mikið um það,“ sagði Guðbjörg.

mbl.is

LEIKIR Í DAG - 19. APRÍL

Útsláttarkeppnin

LEIKIR Í DAG - 19. APRÍL

Útsláttarkeppnin