Stuðningurinn til fyrirmyndar

Þóra Björg Helgadóttir lék 108 leiki í íslensku treyjunni.
Þóra Björg Helgadóttir lék 108 leiki í íslensku treyjunni. mbl.is/Ómar

„Já ekki spurning. Þetta er náttúrulega búið að vera frábært og algjörlega til fyrirmyndar og fyrir mig sem fór í gegnum hin tvö mótin, maður segir bara loksins,“ sagði Þóra Björg Helgadóttir, fyrrverandi landsliðsmarkvörður í knattspyrnu í samtali við mbl.is, aðspurð hvort hún teldi að stuðningurinn og umfjöllunin sem kvennalandsliðið hefur fengið hefði góð áhrif á þær.

Þóra lék á EM árin 2009 og 2013 og er fimmta leikjahæst í sögu landsliðsins með 108 leiki á bakinu. Hún starfar nú sem markvarðaþjálfari Íslandsmeistara Stjörnunnar.

„Þetta er ekkert nema jákvætt fyrir þær, vissulega er hægt að skilja að það sé aukin pressa en ég held að þetta vinni bara jákvætt með liðinu. Það eru allir með þeim og þær eru að upplifa að undirbúningurinn var til fyrirmyndar og þær hafa ekki yfir neinu að kvarta og geta einbeitt sér að því hvað þær eiga að gera inni á vellinum.“

Fyrirliði liðsins, Margrét Lára Viðarsdóttir, sleit krossband skömmu fyrir mótið. Telur Þóra að það hafi mikil áhrif á liðið?

„Já auðvitað hefur það áhrif. Liðið fær slæmar fréttir um að einhver leikmaður geti ekki verið með en ég held reyndar að þær hafi fengið nógu mikinn tíma núna til að stilla sig af og séu farnar að pæla í EM. Þetta er hræðilega sorglegt fyrir hana og hópinn. Ég held að vísu að stelpurnar séu búnar að útiloka allar tilfinningar varðandi það á þessum tímapunkti. Þetta var ömurlegt en það þýðir ekkert að velta sér upp úr því og núna þarf bara að fara að hugsa um annað.“

Hvernig heldur fyrrverandi landsliðsmarkvörðurinn að íslenska liðinu muni vegna í úrslitakeppninni?

Liðið vel stemmt og Þóra vonar það besta

„Það er voðalega erfitt að segja til um það. Mér finnst við ennþá með hörkulið og fótbolti er nú þannig að það er allt hægt, ef að þær ná þessum einkennis orðum okkar sem eru liðsheild og barátta, þá geta þær gert hvað sem er. Það er aldrei hægt að ætlast til þess að Ísland komist upp úr riðlinum en maður krossar bara fingur og vonar að það takist.“

Hvernig er staðan á liðinu?

„Hún er bara góð. Ég sé það á þeim og ég fylgist aðeins með þeim persónulega líka og mér finnst virðast vera góð stemning og mér finnst virka fyrir að vera samheldnar og samtaka í öllu sem þær segja og gera. Þjálfarateymið líka svo ég hef mjög góða tilfinningu fyrir stöðunni á liðinu.“

Hvernig spáir Þóra að Ísland - Frakkland fari?

„Ég vil náttúrulega bara fá 1:0 sigur fyrir Ísland. Það er á brattan að sækja en það er að sjálfsögðu það sem ég vil, að við sigrum. Alveg sama hversu galin við Íslendingar getum verið í væntingum, á meðan þær fara inn á völlinn og gera þetta saman og leggja allt sem þær eiga í þetta, þá verðum við stolt af þeim,“ sagði Þóra í samtali við mbl.is.

mbl.is

LEIKIR Í DAG - 18. APRÍL

Útsláttarkeppnin

LEIKIR Í DAG - 18. APRÍL

Útsláttarkeppnin