Addi Bill að púsla þessu saman upp á nýtt

„Leikmenn vita að þegar við erum búin að tala við ykkur þá er þessum Frakkaleik endanlega lokið. Sviss bíður okkar,“ sagði Freyr Alexandersson, þjálfari kvennalandsliðs Íslands í knattspyrnu, daginn eftir fyrsta leik liðsins á EM í Hollandi.

Freyr ræddi við mbl.is fyrir æfingu íslenska liðsins í dag. Ísland tapaði 1:0 fyrir Frökkum en mætir næst Sviss á laugardaginn og svo Austurríki í lokaleik sínum í riðlinum. Sviss tapaði fyrir Austurríki í gær og er jafnvel enn frekar en Ísland með bakið upp við vegg fyrir leikinn á laugardag:

„Þetta er leikur sem hvorugt liðið má tapa. Svissneska liðið varð fyrir smááföllum í gær. Fyrirliðinn meiddist og hinn miðvörðurinn, Rahel Kiwic, fékk rautt spjald og verður í banni. Þetta riðlar aðeins undirbúningi okkar frá því fyrir mót en Addi Bill [innsk.: Arnar Bill Gunnarsson, sem er leikgreinir Svisslendinga fyrir íslenska landsliðið] er núna uppi á hóteli að púsla þessu saman. Þegar ég kem þangað þá klárum við drögin að fundinum í kvöld,“ sagði Freyr.

Freyr tók ákveðna áhættu í gær með því að stilla upp þeim Ingibjörgu Sigurðardóttur, Öglu Maríu Albertsdóttur og Sigríði Láru Garðarsdóttur öllum í byrjunarliði, en engin þeirra hafði áður leikið mótsleik fyrir landsliðið:

„Ég skil alveg að fólk hafi kannski verið hissa og með einhverjar skoðanir á þessu. Mér fannst allir leikmenn standa sig vel í gær, hvort sem það var reynslumesti leikmaðurinn eða þær yngstu. Þær skiluðu góðri frammistöðu og voru taktískt flottar. Það sem ég er mest stoltur af varðandi yngri stelpurnar er hvernig þær réðu við spennustigið. Þú getur ímyndað þér hvernig þetta hefur verið í undirbúningnum, það er búið að fara upp og niður, og reynslan af að hafa spilað svona leik á svona móti verður þeim ómetanleg. Þær stóðust prófið og áttu frábæran leik í gær, og ég er mjög stoltur af þeim og liðinu öllu,“ sagði Freyr.

mbl.is

LEIKIR Í DAG - 25. APRÍL

Útsláttarkeppnin

LEIKIR Í DAG - 25. APRÍL

Útsláttarkeppnin