Jafnfljót með og án boltans

„Þær eru baneitraðar ef við erum framarlega á vellinum og missum boltann. Við vitum alveg hvar hætturnar liggja,“ sagði Guðbjörg Gunnarsdóttir, landsliðsmarkvörður í knattspyrnu, um Svisslendinga en Ísland mætir Sviss á laugardag í öðrum leik sínum á EM.

Ísland tapaði báðum leikjum sínum við Sviss í undankeppni HM 2015, 2:0 á Laugardalsvelli og 3:0 ytra.

„Ég man alveg hvernig þessi mörk voru sem þær skoruðu á móti okkur. Þær skoruðu ekki þegar við vorum með okkar varnarmenn í sínum stöðum, heldur frekar þegar við töpuðum sjálfar boltanum á miðjunni og vorum þá ekki í okkar skipulagi. Án þess að vera bara að hugsa um þær þá verðum við að vita af hættunum,“ sagði Guðbjörg. Hún þekkir vel skærustu stjörnu Sviss og einn besta leikmann heims, Ramonu Bachmann, sem lék með Rosengård í Svíþjóð árin 2012-2015, fór þaðan til Wolfsburg en er nú hjá Chelsea.

„Ramona Bachmann er algjör X-faktor og í raun leikmaður sem lið eins og Frakkland er ekki með. Við þurfum að hugsa extra mikið um hana. Svo eru þær bara með góða spilara. Þær eru týpískt „Þýskaland B“, ef svo er hægt að segja, með þýskan þjálfara og vilja spila eins og Þýskaland. Þær eru ógeðslega góðar í að halda boltanum, en við verðum aðallega að passa að tapa ekki boltanum á hættulegum stöðum,“ sagði Guðbjörg.

„Ramona var lengi í Rosengård svo ég hef mætt henni helvíti oft. Það sem gerir hana svolítið einstaka er að hún er örugglega jafnfljót með og án boltans. Hún er með rosalega góða stjórn á boltanum. Hennar mínus er að hún er ekkert alltaf að gefa boltann þó að einhver sé í betra færi en hún. Hún hefur ákveðna veikleika líka, sem við vitum um en ég ætla ekki að uppljóstra núna,“ sagði Guðbjörg.

Nánar er rætt við hana í meðfylgjandi myndskeiði.

mbl.is

LEIKIR Í DAG - 23. APRÍL

Útsláttarkeppnin

LEIKIR Í DAG - 23. APRÍL

Útsláttarkeppnin