Stolt en spurð furðulegra spurninga

Harpa Þorsteinsdóttir
Harpa Þorsteinsdóttir mbl.is/Golli

Markahrókurinn Harpa Þorsteinsdóttir sneri aftur í leik með íslenska landsliðinu eftir rúmlega árs fjarveru þegar hún kom inn á sem varamaður í 1:0-tapinu gegn Frakklandi á EM í fyrrakvöld. Mikil vinna hennar bæði fyrir og eftir fæðingu hins fimm mánaða gamla Ýmis skilaði sér í sæti í EM-hópnum og rúmum 15 mínútum í fyrsta leiknum á mótinu:

„Ég er auðvitað stolt, en ég er alltaf stolt þegar ég spila fyrir íslenska landsliðið. Mér leið ekki þannig í gær að þetta væri einhvers konar „comeback“. Ég var bara mjög einbeitt í því að ég væri að fara að spila landsleik. Þegar ég geri það legg ég allt í sölurnar. Mér leið akkúrat þannig. Ég var bara í fótbolta, að spila landsleik og ætlaði mér að skilja allt eftir á vellinum,“ sagði Harpa þegar hún ræddi við Morgunblaðið á æfingasvæði íslenska landsliðsins í Hollandi í gær.

Tapið gegn Frökkum var afskaplega sárt en sigurmarkið kom úr umdeilanlegri vítaspyrnu rétt fyrir lok leiksins. Vítið var dæmt á Elínu Mettu Jensen, sem Harpa sást hughreysta á vellinum eftir leik, og Freyr Alexandersson þjálfari hefur nefnt það oftar en einu sinni og oftar en tvisvar hve mikinn stuðning yngri leikmenn hafa frá þeim eldri og reyndari:

„Við tökum bara á þessu sem lið. Við vorum auðvitað svekktar eftir leikinn en það er líka ótrúlega margt gott sem við getum tekið frá þessum leik. Tilfinningarnar eru því blendnar. Við stöndum í þessu saman og stöppum stálinu hver í aðra ef einhver er niðurlút. Ég upplifði það ekkert endilega núna. Liðið bara tapaði og við bæði töpum og vinnum sem lið,“ sagði Harpa.

Spurningarnar sem Harpa hefur þurft að svara hafa m.a. snúið að Ými, ungum syni hennar og í viðtölum við fjölmiðla eftir leikinn í fyrrakvöld lék fjölmiðlamönnum mikil forvitni á að vita hver hugsaði um barnið á meðan hún spilaði. „Bara svona eins og enginn fótboltamaður hefði gengið í gegnum það að spila fótboltaleik en vera með ungbarn heima. Það er aðallega erlenda pressan sem spyr svona. Ég held að við þurfum aðeins að hugsa okkar gang svona þegar árið er 2017,“ sagði Harpa.

Sjáðu viðtalið við Hörpu í íþróttablaði Morgunblaðsins

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

LEIKIR Í DAG - 25. APRÍL

Útsláttarkeppnin

LEIKIR Í DAG - 25. APRÍL

Útsláttarkeppnin