Erum á allt, allt öðrum stað í dag

Sigríður Lára Garðarsdóttir er ein nýliðanna sem sló í gegn …
Sigríður Lára Garðarsdóttir er ein nýliðanna sem sló í gegn gegn Frökkum. AFP

„Það er eins góð staða á hópnum og kostur er á,“ sagði Freyr Alexandersson, þjálfari Íslands, sem getur þar með stillt upp sínu sterkasta byrjunarliði gegn Sviss á morgun á EM kvenna í knattspyrnu.

„Það eru allir heilir heilsu, endurheimtin hefur gengið gríðarlega vel. Það er góður andi í hópnum, andlega erum við tilbúin,“ sagði Freyr þegar hann ræddi við fréttamenn á blaðamannafundi á Tjarnarhæð í dag, heimavelli De Graafschap, þar sem leikurinn við Sviss fer fram.

Freyr segir ungu leikmennina, sem slógu í gegn á stóra sviðinu á þriðjudag, ekki hafa verið óþarflega hátt uppi eftir leikinn við Frakka. Útlit er fyrir að þær Ingibjörg Sigurðardóttir, Sigríður Lára Garðarsdóttir og Agla María Albertsdóttir verði áfram í byrjunarliðinu gegn Sviss:

„Þessar stelpur fljúga bara með okkur og niður aftur. Við erum öll á sömu bylgjulengd. Ég held að þær hafi notið þess mjög að taka þátt í verkefninu og frammistaðan var frábær eins og við sáum, hjá þeim öllum. Þessar þrjár eru mjög jarðbundnar stúlkur og einbeittar að njóta hvers dags fyrir sig á þessu móti. Eins og við öll voru þær svekktar að fá ekkert út úr leiknum, en daginn eftir fór fram góð vinna við að ná í orku sem þær tóku þátt í líka. En ég held að það sé alveg ljóst að þær munu aldrei gleyma þessum degi,“ sagði Freyr.

Tap gegn Sviss í fyrsta leik Freys

Fyrsti leikur landsliðsins undir stjórn Freys var gegn Sviss, sumarið 2013, þar sem Sviss var mun sterkari aðilinn og vann 2:0-sigur.

„Það er ýmislegt búið að gerast frá þessum athygliverða fyrsta leik mínum með landsliðinu. Ég upplifði ýmislegt þar og rakst á ýmislegt. Við spiluðum illa og áttum ekkert skilið. Við erum á allt, allt öðrum stað í dag. Ég þyrfti korter til að lýsa því öllu,“ sagði Freyr.

„Við erum bara spennt fyrir leiknum á morgun, óháð öllum hinum leikjunum sem við höfum farið illa út úr gegn þeim. Þetta er nýr leikur og nýr dagur. Liðið okkar er mikið breytt og taktíkin allt öðruvísi. Við erum eins vel undirbúin til að takast á við þeirra styrkleika og hugsast getur. Ef okkur tekst ekki að bregðast við því þá eru þær bara betra lið og við verðum að kyngja því,“ sagði Freyr.

mbl.is

LEIKIR Í DAG - 25. APRÍL

Útsláttarkeppnin

LEIKIR Í DAG - 25. APRÍL

Útsláttarkeppnin