Þurfum að sýna sömu hörku og Ísland

Ana-Maria Crnogorcevic í baráttunni gegn Austurríki. Sviss tapaði leiknum, 1:0.
Ana-Maria Crnogorcevic í baráttunni gegn Austurríki. Sviss tapaði leiknum, 1:0. AFP

„Við getum kannski talað við dómarann fyrir leik, en það er aðalatriðið að við séum sjálfar harðar og jöfnum það sem þær gera,“ sagði Vanessa Bernauer, leikmaður Sviss, aðspurð hvort íslenska liðið sýndi ekki sérlega mikla hörku í sínum leik og hefði jafnvel verðskuldað rautt spjald gegn Frökkum á þriðjudag.

Ísland og Sviss mætast á morgun í annarri umferð Evrópumóts kvenna í knattspyrnu, í Doetinchem. Bernauer, liðsfélagi Söru Bjarkar Gunnarsdóttur hjá Wolfsburg, og Ana-Maria Crnogorcevic úr Frankfurt sátu fyrir svörum í dag á leikvanginum sem leikið verður á á morgun.

„Við erum góðar í að taka við, en líka í að gefa. Við verðum að spila eins fast og dómarinn leyfir en svo verður hann að taka stjórnina,“ sagði Crnogorcevic.

Bernauer var einnig spurð út í Söru Björk sem hún hrósaði mjög: „Auðvitað er sérstakt að mæta henni. Sara er hjartað í íslenska liðinu og það er alltaf hægt að finna fyrir orkunni í henni.“

Svissneskur blaðamaður spurði leikmennina einnig út í íslensku stuðningsmennina, sem voru háværir á leiknum við Frakka: „Þetta var ekkert öðruvísi þegar við spiluðum á HM í Kanada. Þó að þeir haldi með Íslandi þá er alltaf gaman að spila fyrir svona marga áhorfendur,“ sagði Crnogorcevic.

mbl.is

LEIKIR Í DAG - 24. APRÍL

Útsláttarkeppnin

LEIKIR Í DAG - 24. APRÍL

Útsláttarkeppnin