Ömurlegt þegar það telur ekkert

Fanndís Friðriksdóttir var kát þegar hún fagnaði sínu fyrsta marki …
Fanndís Friðriksdóttir var kát þegar hún fagnaði sínu fyrsta marki á stórmóti, afar laglegu marki, en skiljanlega öllu daprari í bragði í viðtölum eftir leik. AFP

„Auðvitað er ég ánægð með að hafa náð að koma inn marki en það er ömurlegt þegar það telur ekkert,“ sagði Fanndís Friðriksdóttir eftir 2:1-tap Íslands gegn Sviss á EM í knattspyrnu í kvöld.

Fanndís skoraði afar laglegt mark í fyrri hálfleiknum en fékk annars ekki mörg færi til að bæta við marki: „Mér fannst við, sérstaklega í fyrri hálfleik, geta nýtt okkur betur hvað þær voru framarlega á vellinum. Svona er þetta bara stundum,“ sagði Fanndís, sem líkt og aðrir leikmenn íslenska liðsins var afar vonsvikin yfir dómgæslunni í leiknum:

„Ég náði því engan veginn hvað dómarinn var að gera. Hún stoppaði allt flæði í leiknum og var bara léleg.“

Öfugt við dómarann getur Fanndís verið afar stolt af sinni eigin frammistöðu í fyrstu tveimur leikjum Íslands, en hún hefur verið hættulegasti sóknarmaður Íslands í þeim báðum. Hún var aftur á móti ekkert sérstaklega hrifin af því að tala um eigið ágæti eftir tapið:

„Það er svo erfitt að segja svona þegar úrslitin falla ekki með manni, en ég reyni auðvitað bara að leggja mig 100 % fram við að gera það sem ég get til að hjálpa liðinu að ná í þrjú stig. Því miður hefur  það bara ekki gengið. Við þurfum því allar að gera betur til að sækja þessi þrjú stig. Við ætlum að enda þetta mót á þremur stigum. Maður verður svekktur fram yfir miðnætti en svo er það það eina sem við hugsum um.“

mbl.is

LEIKIR Í DAG - 29. MARS

Útsláttarkeppnin

LEIKIR Í DAG - 29. MARS

Útsláttarkeppnin