Tölfræðin ekki með íslenska liðinu

Ana Maria Crnogorcevic og Lara Dickenmann í baráttunni í leik …
Ana Maria Crnogorcevic og Lara Dickenmann í baráttunni í leik Sviss og Austurríkis. AFP

Það hefur verið við ramman reip að draga þegar íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu hefur mætt Sviss undanfarin ár. Liðin hafa alls mæst sjö sinnum og Ísland hefur tvisvar sinnum farið með sigur af hólmi. Töluverður tími er síðan Íslandi landaði sigri gegn Sviss, en sigrarnir voru í vináttulandsleikjum árin 1985 og 1986.

Erla Þuríður Rafnsdóttir, Ragna Lóa Stefánsdóttir og Ragnheiður Jónasdóttir tryggði Íslandi 3:2-sigur gegn Sviss ytra í vináttulandleik árið 1985. Þá skoraði Kristrún Anna Arnþórsdóttir sigurmark íslenska liðsins á móti Sviss þegar liðin léku á Akranesvelli árið 1986.

Sviss hefur unnið sigur í fjórum af þessum sjö leikjum, einu sinni hafa liðin gert jafntefli og Ísland hefur sigrað í fyrrgreindum tveimur leikum liðanna.

Dickenmann reynst erfiður ljár í þúfu

Sviss hafði betur í báðum leikjum liðsins gegn Íslandi í undankeppni fyrir HM 2015 í Kanada. Sviss lagði Íslandi að velli með tveimur mörkum gegn engu í fyrri leik liðanna á Laugardalsvellinum. Sá leikur var frumraun Freys Alexanderssonar með íslenska liðið. 

Sviss vann síðan öruggan 3:0-sigur í seinni leik liðanna, en Sviss vann að lokum riðilinn og tryggði sér sæti á stórmót í fyrsta skipti í sögunni á HM 2015 í Kanada. Sviss komst upp úr riðlinum á HM 2015, en féll síðan úr keppni í 16-liða úrslitum keppninnar.

Sviss vann svo þriðja leik sinn í röð á móti Íslandi þegar liðin mættust á Algarve-mótinu í mars árið 2015. Lokatölur í þeim leik urðu 2:0 Sviss í vil og markatalan í síðustu þremur leikjum liðanna þar af leiðandi 7:0 Sviss í hag.

Lara Dickenmann, samherji Söru Bjarkar Gunnarsdóttur hjá Wolfsburg, hefur hrellt íslenska liðið grimmt í undanförnum leikjum liðanna, en hún hefur skorað fjögur mörk í síðustu þremur leikjum gegn Íslandi síðustu ár.

Leik­ur Íslands og Sviss i annarri umferð í lokakeppni EM í knattspyrnu kvenna fer fram á Stadi­on De Vijver­berg í Doet­inchem í Hollandi og hefst klukk­an 16.00 í dag. Sindri Sverr­is­son, blaðamaður mbl.is, sem stadd­ur er í Hollandi mun lýsa leikn­um í beinni texta­lýs­ingu á mbl.is. 

mbl.is

LEIKIR Í DAG - 24. APRÍL

Útsláttarkeppnin

LEIKIR Í DAG - 24. APRÍL

Útsláttarkeppnin