Púsl fyrir lokaleik og vinna Heimis ekki í vaskinn

Freyr Alexandersson kallar skilaboð til leikmanna í leiknum við Sviss …
Freyr Alexandersson kallar skilaboð til leikmanna í leiknum við Sviss á laugardaginn. AFP

„Það er ekki búið að tilkynna né ákveða byrjunarliðið. Það er smá púsluspil, bæði út frá líkamlegu ástandi og svo því hvernig andlegt ástand er. Við sjáum það betur eftir æfinguna í kvöld,“ sagði Freyr Alexandersson, þjálfari kvennalandsliðsins í knattspyrnu, daginn fyrir síðasta leik Íslands á EM.

Freyr ræddi við fréttamenn í „Kastalanum“, leikvanginum í Rotterdam þar sem leikur Íslands og Austurríkis fer fram annað kvöld kl. 18.45 að íslenskum tíma. Leikmenn eru nú að hefja æfingu á keppnisvellinum og Freyr ætlar ekki að ákveða byrjunarlið sitt fyrr en eftir hana. Sif Atladóttir, Dagný Brynjarsdóttir, Sara Björk Gunnarsdóttir og Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir voru meðal þeirra sem meiddust í leiknum við Sviss á laugardag, en þó engin alvarlega:

„Fengu allar þung högg. Sif kláraði allar orkubirgðir á síðustu andartökum leiksins og fékk einnig högg á lærið á þeim tíma. En sjúkrateymið er búið að vinna kraftaverk síðustu daga. Allir leikmenn eru leikfærir, en svo er spurning hversu mikið er eftir af orku í vöðvunum. Þá hefur andlegt ástand mikið að segja, hversu ferskur maður er í höfðinu til að ná í þá orku sem er til staðar,“ sagði Freyr.

Skiptir mig miklu að vinna faglega til síðasta dags

Heimir Hallgrímsson hefur séð um að greina leik austurríska liðsins og Freyr segir að sú vinna fari ekki í vaskinn þó að leikurinn á morgun hafi minni þýðingu en vonast var til, í ljósi þess að Ísland getur ekki komist upp úr riðli sínum eftir töp gegn Sviss og Frakklandi:

„Við nýtum þessa vinnu eins vel og við höfum nýtt vinnuna fyrir fyrri leiki. Það skiptir mig miklu máli að vinna mjög faglega frá fyrsta degi til þess síðasta, alveg sama hvenær maður hættir í þessu móti. Ég ákvað það mjög snemma að sama hvernig þessi vegferð myndi ganga, þá myndi ég sjá til þess að ég myndi ekki sjá eftir neinu. Þau vinnubrögð hafa bara haldið áfram. Öll sú faglega vinna sem við höfum haft hefur haldist áfram. Öllum upplýsingunum sem við höfðum safnað hefur verið komið til skila til leikmanna, svo þeir eru vel undirbúnir,“ sagði Freyr.

„Þær hafa spilað þetta mót frábærlega vel eins og við áttum von á. Þetta er lið á stöðugri uppleið sem er algjörlega sátt við sinn leikstíl, bæði leikmenn, þjálfarar og umhverfið í kringum liðið. Þær spila taktískt mjög skemmtilega; 4-4-2 sóknarlega en breyta í 5-4-1 varnarlega. Þær fara „all in“ í pressu þegar boltinn er á okkar vallarhelmingi og eru mjög líkamlega sterkar. Þegar við náum stjórn á boltanum fara þær djúpt í blokkir, í 5-4-1, og gefa lítið svæði eftir. Þær skora helming marka sinna eftir föst leikatriði, eru gríðarlega sterkar þar, og hafa síðan leikmenn í fremstu röð í framherjastöðunum sem nýta færin sín vel. Þetta er gríðarlega vel þjálfað lið með sterka liðsheild, sem spilar af krafti. Alls ekki ólíkt íslenska liðinu,“ sagði Freyr.

mbl.is

LEIKIR Í DAG - 25. APRÍL

Útsláttarkeppnin

LEIKIR Í DAG - 25. APRÍL

Útsláttarkeppnin