Frábært að geta þakkað fyrir allt mótið

Friðgeir Bergsteinsson, Joey Drummer, Brynjar Þorleifsson og Halldór Marteinsson munu …
Friðgeir Bergsteinsson, Joey Drummer, Brynjar Þorleifsson og Halldór Marteinsson munu láta vel í sér heyra í Kastalanum í kvöld. mbl.is/Sindri

„Það er alltaf gott partý þar sem Íslendingar eru komnir saman,“ sögðu fjórir af forkólfum Tólfunnar sem mbl.is ræddi við innan um fjölda bláklæddra stuðningsmanna kvennalandsliðsins í knattspyrnu í Rotterdam í dag, fyrir leik Íslands og Austurríkis á EM.

Þeir Halldór Marteinsson, Brynjar Þorleifsson, Friðgeir Bergsteinsson og Joey Drummer voru glaðbeittir þrátt fyrir að hafa auðvitað vonast til þess eins og aðrir Íslendingar að enn væri von um að Ísland kæmist áfram í 8-liða úrslitin.

„Hollendingarnir bjuggust ekki við svona mikilli stemningu hérna. Stóru bjórglösin eru af skornum skammti. En það er alltaf partý þegar Íslendingar koma saman og þannig verður það í dag,“ sagði Joey kátur.

„Stemningin var mjög góð á fyrsta leiknum, sem ég var á, og svo heyrði maður að hún var geggjuð í öðrum leiknum. Við höldum bara svona áfram,“ sagði Friðgeir.

Tólfan hefur unnið í nýjum stuðningsmannasöngvum um leikmenn landsliðsins sem þeir kyrjuðu með góðri aðstoð síðasta laugardag:

„Þetta gekk frábærlega í leiknum við Sviss. Við vorum með ungar stelpur þarna með okkur sem peppuðu þetta algjörlega með okkur. Þær lærðu öll lögin í skrúðgöngunni á leiðinni á völlinn, voru fyrir aftan okkur í stúkunni og voru frábærar. Ég vil bara gefa „shout out“ á þær. Þær voru geggjaðar og nýju lögin eru upp á hundrað,“ sagði Brynjar. Halldór bætti því við að góður stuðningur í kvöld gæti hjálpað íslenska liðinu inn í næsta stóra verkefni sitt:

„Þetta er frábær leikur til að geta þakkað stelpunum fyrir allt mótið í heild sinni. Ég hugsa að það verði ekkert vandamál að ná upp stemningu í stúkunni, og peppa stelpurnar áfram inn í næsta verkefni. Það er stutt í fyrsta leik í undankeppni HM og þangað viljum við fara.“

mbl.is

LEIKIR Í DAG - 29. MARS

Útsláttarkeppnin

LEIKIR Í DAG - 29. MARS

Útsláttarkeppnin