Danir lögðu Ísland og unnu mótið

Það var létt yfir íslensku strákunum á æfingu á dögunum.
Það var létt yfir íslensku strákunum á æfingu á dögunum. mbl.is/Golli

Íslenska karlalandsliðið í handknattleik tapaði í dag fyrir Dönum, 31:27, í hreinum úrslitaleik á fjögurra þjóða æfingamóti sem staðið hefur yfir í Danmörku yfir helgina. Danir voru tveimur mörkum yfir í hálfleik, 16:14.

Mörk Íslands: Ásgeir Örn Hallgrímsson 7, Róbert Gunnarsson 6, Arnór Atlason 4, Þórir Ólafsson 4, Oddur Gretarsson 2, Vignir Svavarsson 2, Aron Pálmarsson 2. Björgvin Páll Gústavsson varði 11 skot og Hreiðar Levý Guðmundsson 2.

Danir höfðu yfirhöndina nánast allan leikinn en Ísland komst yfir einu sinni, í stöðunni 14:13.

Ísland varð í 2. sæti mótsins og Pólland í 3. sæti eftir sigur á Slóveníu í dag, 25:24.

Næsti leikur Íslands er gegn Finnlandi í Laugardalshöll á föstudaginn en Evrópumeistaramótið í Serbíu hefst svo hjá Íslendingum á mánudagskvöldið eftir viku.

Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is:

60. Leik lokið. Íslands skoraði ekkert á síðustu mínútum leiksins og má því sætta sig við tap, 31:27.

56. Björgvin Páll er kominn aftur í markið en kom ekki í veg fyrir að Danir kæmust í 30:27. Ásgeir Örn skoraði 27. mark Íslands og er búinn að eiga góðan leik.

54. Róbert Gunnarsson bætti við sínu fimmta marki, Oddur Gretarsson skoraði af línunni og Aron Pálmarsson með góðu undirhandarskoti en Danir halda forskotinu, eru tveimur mörkum yfir, 28:26.

50. Ásgeir Örn skoraði eftir gegnumbrot og minnkaði muninn í 25:23 og Ísland fékk svo hraðaupphlaup en skot Vignis Svavarssonar var varið. Mikkel Hansen náði svo þriggja marka forskoti fyrir Dani í kjölfarið, 26:23.

46. Ásgeir Örn stendur fyrir sínu og minnkaði muninn í 22:21 en Oddur Gretarsson fékk brottvísun í næstu sókn Dana sem komust þá í 23:21. Rúnar Kárason er núna kominn inná í skyttustöðuna. Róbert Gunnarsson minnkaði muninn í eitt mark á ný með frábæru marki eftir að skot var varið, en Danir juku muninn í tvö mörk aftur, 24:22.

43. Oddur Gretarsson minnkaði muninn í 19:18, Danir skoruðu á ný en Arnór Atlason svaraði að bragði. Hann bætti svo við öðru marki í næstu sókn en Danir skora einnig úr sínum sóknum og eru yfir, 22:20.

35. Hreiðar Levý Guðmundsson er kominn í markið. Arnór Atlason skoraði fyrsta mark hálfleiksins, Ásgeir bætti við sínu fjórða mark og Þórir skoraði svo úr horninu. Staðan þó 19:17 Dönum í vil.

30. Mörk Íslands í fyrri hálfleik: Róbert Gunnarsson 4, Ásgeir Örn Hallgrímsson 3, Þórir Ólafsson 3, Vignir Svavarsson 2, Aron Pálmarsson 1, Arnór Atlason 1. Björgvin Páll Gústavsson hefur varið 6 skot.

30. Hálfleikur. Danir eru tveimur mörkum yfir, 16:14. Ísland komst í fyrsta sinn yfir eftir rúmlega 27 mínútna leik þegar Vignir Svavarsson skoraði sitt annað mark og kom liðinu í 14:13. Þetta var fjórða mark Íslands í röð. Danir jöfnuðu og komust svo yfir, 15:14, þegar hinn íslenskættaði Hans Lindberg skoraði úr víti eftir að Ólafur Guðmundsson braut á honum. Ólafur fékk fyrstu brottvísun Íslands fyrir brotið. Danir náðu svo einu marki í viðbót úr hraðaupphlaupi rétt áður en flautan gall eftir að skot Arons Pálmarssonar var varið.

27. Þrjú mörk í röð og Ísland búið að jafna metin, 13:13. Þórir Ólafsson skoraði úr horninu, Vignir Svavarsson úr hraðaupphlaupi og svo var Ásgeir Örn að skora sitt þriðja mark.

25. Ísland átti tvö skot í stöng í sömu sókninni en Danir skoruðu í staðinn og eru nú þremur mörkum yfir, 13:10. Stórskyttan Mikkel Hansen var að skora sitt fyrsta mark eftir að Róbert hafði skorað sitt fjórða fyrir Ísland.

22. Arnór Atlason skoraði sitt fyrsta mark og Ásgeir Örn bætti svo við öðru áður en hann átti stoðsendingu á Róbert sem skoraði sitt þriðja mark. Staðan er 10:9. Björgvin Páll Gústavsson hefur verið að verja vel í markinu.

18. Ásgeir Örn Hallgrímsson og Þórir Ólafsson bættu við mörkum fyrir Ísland og nú er staðan orðin 8:6. Danir tóku í kjölfarið leikhlé.

15. Róbert Gunnarsson er búinn að skora tvö mörk í röð fyrir Ísland en Danir hafa enn fjögurra marka forystu, 8:4.

12. Þórir Ólafsson minnkaði muninn í 5:2 úr hraðaupphlaupi en Danir náðu fjögurra marka forskoti á ný í næstu sókn. Sóknarleikurinn aðeins skilað tveimur mörkum á fyrstu ellefu mínútunum hjá Íslandi sem lofar ekki góðu.

6. Danir hafa byrjað leikinn betur og eru 4:1 yfir. Aron Pálmarsson jafnaði metin í 1:1 en síðan hafa heimamenn skorað þrjú í röð. Oddur Gretarsson byrjaði inná í vinstra horninu en hann hefur verið utan hóps í hinum tveimur leikjunum.

0. Danmörk er í A-riðli á EM og Ísland í D-riðli, og því ljóst að liðin munu ekki geta mæst þar nema þau komist bæði í undanúrslit eða leiki um 5. sætið.

0. Ísland hefur unnið Slóveníu, 29:26, og gert jafntefli við Pólland, 31:31, á mótinu til þessa. Danmörk vann hins vegar Pólland, 31:30, en gerði jafntefli við Slóveníu, 29:29.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert