Snorri Steinn: Með svör við öllu

Snorri Steinn laumar sér í gegnum norsku vörnina í dag.
Snorri Steinn laumar sér í gegnum norsku vörnina í dag. EPA

„Við vorum með svör við öllu því sem Norðmenn tefldu fram í þessum leik, jafnt í vörninni sem sókninni,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson, sem stýrði sóknarleik íslenska landsliðsins af festu og öryggi í sigurleiknum á Noregi, 31:26, í Gigantium-höllinni í Álaborg í kvöld.

„Við vorum aldrei í vandræðum með þá í leiknum. Þeim tókst að minnka muninn í þrjú mörk en nær komust þeir ekki. Í hálfleik átti forskot okkar að vera meira en sex mörk miðað við hversu mikið betri við vorum. Síðan kom kafli í byrjun síðari hálfleiks þar sem Norðmenn söxuðu aðeins á forskot okkar. Slíkt gerist oft í leikjum þegar lið hafa náð góðu forskoti. En við vorum aldrei í vandræðum eða í hættu með að tapa leiknum niður,“ sagði Snorri Steinn sem skoraði þrjú mörk úr fimm skotum.

„Heilt yfir þá var þetta góður leikur og gríðarlega mikilvægur fyrir framhaldið.  Nú höfum við fengið blóð á tennurnar fyrir framhaldið,“ sagði Snorri Steinn.

„Það var mikið undir í þessum leik. Fyrsta leik á stórmóti fylgir alltaf mikið stress. Sigurinn var góður og gefur tóninn fyrir framhaldið. Hinsvegar verðum við að komast fljótt niður á jörðina. Við mætum Ungverjum á þriðjudaginn. Þrátt fyrir góða byrjun í dag getur allt ennþá farið í vaskinn,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert