„Bara illa gert hjá mér“

Ásgeir Örn kominn í gott færi í leiknum gegn Ungverjum …
Ásgeir Örn kominn í gott færi í leiknum gegn Ungverjum í gærkvöld. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

„Við ætluðum að sækja hratt á þá á þeim fáu sekúndum sem voru eftir. Ég tók sennilega skotið bara of snemma auk þess sem Kári var frír á línunni. Þetta var bara illa gert hjá mér,“ sagði Ásgeir Örn Hallgrímsson, landsliðsmaður í handknattleik, um lokaskot sitt í leiknum við Ungverja í gær, fjórum sekúndum fyrir leikslok.

Ungverjar jöfnuðu metin, 27:27, þegar 10 sekúndur voru til leiksloka. Aron Pálmarsson var rekinn af leikvelli um leið. Íslenska liðið tók leikhlé og lagði á ráðin. Ásgeir átti lokaskotið sem vörn Ungverja varði.

Niðurstaðan jafntefli en stigið tryggir eigi að síður íslenska landsliðinu sæti í milliriðlakeppni mótsins þótt einum leik sé ólokið, gegn Spánverjum á morgun.

„Ég las þannig í stöðuna að færið væri í lagi fyrir mig, ég sá smugu sem var ekki fyrir hendi þegar á hólminn var komið,“ sagði Ásgeir Örn sem hafði í mörg horn að líta í leiknum en mikið mæddi á honum eftir að Þórir Ólafsson meiddist snemma leiks.

Sjá allt um EM í handknattleik í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert