Ísland í 5. sæti eftir sigur á Póllandi

Ísland tryggði sér fimmta sætið á Evrópumótinu í handbolta með glæsilegum sigri á firnasterku liði Póllands, 28:27, í lokaleik liðsins í Boxinu í Herning í dag. Rúnar Kárason skoraði sigurmarkið þegar rétt ríflega 20 sekúndur voru til leiksloka og Aron Rafn Eðvarðsson varði svo lokaskot Pólverja.

Pólverjar voru með forystuna allan leikinn en Ísland komst yfir í fyrsta skipti þegar Rúnar skoraði sigurmarkið með þrumuskoti sem Slawomir Smzal, hinn frábæri markvörður Póllands, réð ekkert við en hann varði boltann inn.

Erfitt í fyrri hálfleik

Pólland var þremur mörkum yfir í hálfleik, 16:13, en vörn Íslands var ekki góð í fyrri hálfleik og markvarslan eftir því. Varnarleikur Pólverja var aftur á móti mjög góður og Smzal heitur í markinu til að byrja með. Áttu okkar strákar því erfitt með að finna sér góð færi.

Leikur íslenska liðsins lagaðist smám saman í seinni hálfleik og fóru menn að spila vörnina framar. Það hægði á sóknarleik Pólverja en þó verður að þakka markverðinum Aroni Rafni Eðvarðssyni að stórum hluta fyrir sigurinn. Hann kom inn á undir lok fyrri hálfleiks og var alveg frábær í þeim síðari. Í heildina varði hann tólf skot.

Ísland jafnaði metin, 20:20, þegar 16 mínútur voru til leiksloka og héldu í við Pólverjana eftir það sem voru þó alltaf skrefinu á undan. Gunnar Steinn Jónsson og Rúnar Kárason fóru hamförum í sóknarleiknum og skoruðu glæsileg mörk með frábæru einstaklingsframtaki.

Guðjón settist á bekkinn

Guðjón Valur Sigurðsson byrjaði leikinn illa og tók sig hálfpartinn sjálfur af velli. Stefán Rafn Sigurmannsson fékk tækifæri í fyrsta skipti á Evrópumóti og skilaði þremur mörkum í þremur skotum. Hann innkoma skipti sköpum.

Aron Rafn Eðvarðsson varði frá línumanni Pólverja úr dauðafæri þegar mínúta var eftir og staðan, 27:27. Ísland fór í lokasóknina og lét Ásgeir Örn verja frá sér þegar 37 sekúndur voru eftir. Boltinn fór þó í innkast og fékk Ísland aðra tilraun. Hana nýtti Rúnar Kárason með fyrrgreindu þrumuskoti.

Fimmta sætið staðreynd sem er frábær árangur og betri en margir reiknuðu með. Snorri Steinn Guðjónsson átti líklega sinn besta leik á mótinu og skoraði átta mörk en ungu strákarnir og nýrri menn í liðinu áttu daginn. Þetta er þriðji besti árangur Íslands á Evrópumóti í sögunni.

Nánar verður fjallað um leikinn í Morgunblaðinu á morgun en viðtöl koma inn á mbl.is síðar í kvöld.

Mörk Íslands: Snorri Steinn Guðjónsson 8/4, Rúnar Kárason 6, Gunnar Steinn Jónsson 5, Stefán Rafn Sigurmannsson 3, Ásgeir Örn Hallgrímsson 2, Kári Kristján Kristjánsson 2, Þórir Ólafsson 1, Arnór Þór Gunnarsson 1. 
Varin skot: Aron Rafn Eðvarðsson 12 (þar af 3 aftur til mótherja), Björgvin Páll Gústavsson 3 (þar af 1 aftur til mótherja). 

Ísland 28:27 Pólland opna loka
60. mín. Piotr Wyszomirski (Pólland) varði skot Ásgeir lætur verja fra´sér en boltinn út af hinum megin. Aftur til mótherja. 34 sek eftir.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert