„Galtómur“ eftir enn eitt tapið gegn Íslandi

Aron Pálmarsson reynir að stöðva Harald Reinkind í leiknum í …
Aron Pálmarsson reynir að stöðva Harald Reinkind í leiknum í kvöld. Ljósmynd/Foto Olimpik

„Mér líður bara eins og ég sé galtómur. Við börðumst af krafti í 60 mínútur en fengum ekkert út úr því,“ sagði Harald Reinkind, leikmaður norska landsliðsins, við Mbl.is eftir tapið gegn Íslandi á EM í handbolta í kvöld.

Norðmenn tóku leikhlé fyrir lokasókn sína í leiknum þegar þeir freistuðu þess að jafna metin, en höfðu ekki erindi sem erfiði.

„Við bættum við aukamanni í stað markvarðar, eins og við höfðum reynt á æfingum. Okkur tókst að búa til ágætt færi en markvörðurinn sá við því. Við reyndum allt sem við gátum en það var ekki nóg í dag,“ sagði Reinkind. Enn einn sigur Íslands á Noregi varð því staðreynd:

„Ísland er með marga leikmenn sem hafa spilað á háu stigi í fjöldamörg ár, og það telur í svona leikjum. Við lögðum allt í sölurnar og þetta snerist því ekki um það að við sýndum að einhverju leyti minni baráttu en íslenska liðið,“ sagði Reinkind. Noregur leikur næst við öflugt lið Króatíu á sunnudaginn:

„Við verðum að vinna leikinn við Króata. Við unnum þá í undankeppninni og höfum því sýnt að við getum alveg unnið þá, en þetta verður auðvitað líka virkilega erfiður leikur,“ sagði Reinkind.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert