„Aldur er bara tala“

Lukas Nilsson í loftinu í dag. Hann er þvílíkt efni!
Lukas Nilsson í loftinu í dag. Hann er þvílíkt efni! AFP

Lukas Nilsson, leikmaður sænska landsliðsins í handknattleik, var svekktur eftir 27:26 tap liðsins gegn Þjóðverjum í kvöld, en leikið var í C-riðli.

Sænska liðið var með mikla yfirburði gegn Þjóðverjum í fyrri hálfleiknum í kvöld. Liðið var með fjögurra marka forystu og leit allt glimrandi vel út, en í síðari hálfleik komu Þjóðverjar brjálaðir til leiks og tókst nokkurn vegin að klára leikinn.

Undir lokin áttu Svíar möguleika á því að jafna en Nilsson brást bogalistin. Tap var því niðurstaðan fyrir Svía sem eru með 2 stig fyrir lokaumferðina, en liðið á góða möguleika á að komast í milliriðla.

Sænsku blöðin kepptust við að gagnrýna Nilsson fyrir að taka síðasta skot leiksins í ljósi þess að hann er einungis 19 ára gamall, en leikmaðurinn sjálfur svaraði nokkuð vel fyrir sig þegar hann mætti í viðtöl eftir leik.

„Ég er vanur að taka þessi skot fyrir félagsliðið sem ég leik með. Af hverju ætti ég þá ekki að gera það hérna?,“ sagði Nilsson og spurði.

„Ég meina af hverju ekki? Stundum vinnur maður leiki og stundum tapar maður, en stundum verður maður líka að vera ákveðinn og taka svona ákvarðanir. Stundum virkar þetta og stundum ekki, en augljóslega virkaði það ekki núna.“

„Ég myndi taka þetta skot aftur ef ég fengi tækifæri til þess, en þá færi það í netið. Ég finn ekki fyrir meiri pressu en aðrir, aldur er bara tala,“ sagði hann að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert