Spánverjar í milliriðla þrátt fyrir jafntefli

Hart barist í leiknum í kvöld.
Hart barist í leiknum í kvöld. AFP

Spánn gerði í kvöld 24:24 jafntefli við Slóveníu í C-riðli Evrópumótsins sem fer fram í Póllandi um þessar mundir, en það þýðir að Spánverjar eru komnir áfram í milliriðla.

Spænska liðið vann Þýskaland 32:29 í fyrstu umferð riðilsins á meðan Slóvenía tapaði fyrir Svíþjóð 23:21.

Slóvenar mættu því brjálaðir til leiks í kvöld og tókst þeim að ná sér í eitt stig. Slóvenar voru með öll tök á leiknum fram að lokakaflanum en þá tókst Spánverjum að jafna leikinn þegar tuttugu sekúndur voru eftir og lokatölur því 24:24.

Julian Aguinagalde var með 6 mörk fyrir Spánverja á meðan Luka Zvizej var með sama markafjölda fyrir Slóveníu. Þeir voru báðir með 100% skotnýtingu.

Spánn er því eftir þennan leik með 3 stig fyrir lokaumferðina en ljóst er að það nægir þeim til þess að komast í milliriðla. Slóvenía er með 1 stig fyrir leikinn gegn Þýskalandi og þá eru Svíar með 2 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert