„Þessi riðill er klikkaður“

Alexander Petersson í leiknum gegn Norðmönnum.
Alexander Petersson í leiknum gegn Norðmönnum. Adam Jastrzebowski / Foto Olimpik

Espen Christensen, markvörður norska karlalandsliðsins í handknattleik, var vitaskuld ánægður með 34:31 sigur liðsins á Króatíu í B-riðli Evrópumótsins sem fer fram í Póllandi, en öll liðin berjast um síðustu sætin í milliriðlunum.

Ísland vann Noreg í fyrstu umferð riðilsins 26:25 á meðan Króatía hafði betur gegn Hvíta-Rússlandi, en það var þó annað upp á teningnum í umferðinni sem fór fram í gær. Þar tókst Norðmönnum að leggja Króata að velli á meðan Hvíta-Rússlandi vann Ísland 39:38. Úrslitin ráðast því ekki fyrr en á morgun í riðlinum.

„Þetta var mjög stór sigur fyrir okkur í gær þar sem Króatía er í heimsklassa. Þetta var frábær frammistaða hjá okkur,“ sagði Christensen við opinbera síðu Evrópumótsins.

„Þessi riðill er klikkaður! Þetta var ótrúlegur sigur hjá Hvíta-Rússum gegn Íslendingum í gær, en þeir sýndu reyndar gegn Króötum að þeir eru með gott lið. Þeir eru með mikla reynslu bæði frá Minsk og Brest og svo eru þeir með Rutenka ofan á það. Ef við vanmetum þetta lið þá hefur leikurinn gegn Króötum enga þýðingu fyrir okkur.“

„Við eigum möguleika á að taka fjögur stig með okkur í milliriðla, en það er líka möguleiki á að við förum heim,“ sagði Christensen að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert