Háðungin algjör við endastöð

Gunnar Magnússon og Aron Kristjánsson, landsliðsþjálfari, leggja á ráðin.
Gunnar Magnússon og Aron Kristjánsson, landsliðsþjálfari, leggja á ráðin. Ljósmynd / Foto Olimpik

Hún var hreint út sagt algjör, niðurlægingin sem íslenska karlalandsliðið í handbolta, strákarnir okkar, upplifði gegn Króatíu í gærkvöld í leiknum sem réð úrslitum um framtíð Íslands á Evrópumótinu í Póllandi.

Það var ömurlegt að finna hvernig gestir í Spodek-höllinni fóru smám saman að vorkenna íslenska liðinu, líkt og það væri eitthvert annars flokks lið sem ætti ekkert erindi á mótið, eftir því sem hver martraðarmínútan leið í upphafi leiks.

Lausnirnar til að rekja upp vörn Króata voru ekki fyrir hendi auk þess sem hver mistökin ráku önnur og gáfu þeim hræódýr mörk. Vissulega var vörn Króatíu gríðarsterk, eins og allir vissu, en það vissu líka allir að með því að missa boltann í hendur þeirra án þess að klára sóknirnar með almennilegu skoti væri dauðinn yfirvofandi. Sú varð raunin og Króatar refsuðu með hræódýrum mörkum sem svona lið má hreinlega ekki fá til viðbótar við alla sína hæfileika.

Engin ástríða var í íslenska liðinu, allt enn opið í vörninni eftir tapið gegn Hvít-Rússum og Aron Kristjánsson þjálfari hafði engin ráð til að bæta ástandið. Þetta var í raun beint framhald af niðursveiflunni í Katar, móti sem Ísland átti raunar ekki að fá sæti á, og landsliðið hefur nánast verið í frjálsu falli eftir fimmta sætið á EM 2014. Síðustu leikirnir í undankeppni EM, og sigurinn sem hékk á svo miklum bláþræði gegn Noregi, gáfu kannski einhverjum von um að Aron gæti endurtekið árangurinn frá því á EM í Danmörku fyrir tveimur árum, en svo var ekki. Hann virðist kominn á algjöra endastöð með liðið.

Sjá greinina í heild og umfjöllun um leik Íslands og Króatíu á EM í handbolta í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert