„Hvað var að gerast?“

„Ég hef ekki hugmynd um hvað var að gerast. Litlu hlutirnir hafa skipt miklu máli fyrir okkur,“ sagði meiddur fyrirliði Þjóðverja Uwe Gens­heimer eftir að Þýskaland sigraði Noreg, 34:33, eftir framlengingu í undanúrslitum Evrópumótsins í handknattleik.

Dagur Sigurðsson, þjálfari Þýskalands, var rólegur en kátur eftir leikinn. „Þetta var eins og í spennusögu. Ég vissi að við þyrftum að berjast fyrir hverju marki en við vorum lengi undir og þetta var spennandi leikur,“ sagði nýjasta hetjan í Þýskalandi, Dagur Sigurðsson.

Kai Häfner skoraði sigurmark Þjóðverja þegar sex sekúndur voru eftir af framlengingunni. Þetta var einungis annar leikur hans í mótinu en hann kom til Póllands fyrir leikinn gegn Danmörku á miðvikudag vegna mikilla meiðsla í leikmannahópi Þjóðverja.

„Við fengum tækifæri til að vinna leik sem var nánast tapaður. Ég er bara ánægður að ég gat lagt mitt af mörkum til að hjálpa liðinu,“ sagði hetja Þjóðverja, Häfner, eftir leikinn í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert